Nærri 86 prósent af orku Íslands komu frá endurnýjanlegum orkugjöfum árið 2021. Hækkaði hlutfallið um 2 prósent frá árinu áður og er langhæsta hlutfallið í Evrópu. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Eurostat, tölfræðistofnun Evrópusambandsins.

Ísland hefur leitt listann frá því að Evrópusambandið tók fyrst saman tölur árið 2004, en aldrei með jafn miklum mun og nú. Í öðru sæti er Noregur með 74 prósent endurnýjanlegrar orku, 11 prósentum minni en Ísland. Til samanburðar munaði aðeins hálfu prósenti á löndunum tveimur árið 2004 þegar Evrópusambandið tók fyrst saman tölur um endurnýjanlega orku.

Það ár var hlutfall Íslands aðeins tæplega 59 prósent og hefur það því hækkað um tæplega 27 prósent á 17 árum. Hlutfall Evrópusambandsins hefur á sama tíma hækkað úr tæplega 10 prósentum í 22.

Þrátt fyrir að hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa hafi hækkað mikið á undanförnum árum eru þeir aðeins í meirihluta í þremur löndum. Íslandi, Noregi og Svíþjóð. Stórþjóðir á borð við Þýskaland, Frakkland, Ítalíu og Spán eru allar undir Evrópumeðaltalinu. Á botninum eru Lúxemborg, Írland, Holland og Malta með 12 prósent.

Þegar skoðaðir eru einstakir þættir sést að nærri 100 prósent íslenskrar raforkuframleiðslu eru endurnýjanleg, 97 prósent orku til húshitunar og 12 prósent í samgöngum. En í samgöngum standa Svíar, Finnar og Norðmenn okkur framar.