Ísland var í næstneðsta sæti í Evrópu yfir hlutfall íbúa landsins sem reyktu sígarettu á hverjum degi árið 2019. Þetta kemur fram í könnun Eurostat, tölfræðiveitu Evrópusambandsins, sem birtist í vikunni.

Fimm ár eru liðin frá síðustu rannsókn þessa efnis og eru Svíar áfram í neðsta sæti og Íslendingar þar næstir á lista.

Samkvæmt upplýsingum Euro­stat voru 7,5 prósent Íslendinga yfir fimmtán ára aldri sem reyktu að minnsta kosti eina sígarettu á hverjum degi árið 2019 og tvö prósent sem sögðust reykja tuttugu sígarettur eða meira daglega.

Hlutfall karla sem reyktu daglega var örlítið hærra en hlutfall kvenna, þar sem 8,7 prósent karla reyktu daglega en hlutfall kvenna var 6,5 prósent. Á sama tíma voru fleiri karlar sem reyktu tuttugu sígarettur eða fleiri á hverjum degi, um 3,5 prósent, en aðeins örfáar konur reyktu það mikið, undir einu prósenti.

Er það örlítið lægra hlutfall en tölfræði Landlæknis fyrir reykingar árið 2019 segir til um, en í takti við samdrátt í hlutfalli reykingafólks á Íslandi undanfarna áratugi. Fyrir þrjátíu árum síðan sagðist um þriðjungur Íslendinga reykja sígarettu daglega og fyrir tíu árum síðan var hlutfallið komið niður í fjórtán prósent.

Ísland er í næstneðsta sæti listans yfir hlutfall reykingafólks yfir fimmtán ára aldri og talsvert frá meðaltalinu innan sambandsríkja Evrópusambandsins, sem er 18,4 prósent. Norðurlandaþjóðirnar skipa neðstu fjögur sætin og Svíþjóð er með lægsta hlutfall reykingamanna í allri Evrópu, með 6,4 prósent.

Í Finnlandi voru 9,9 prósent sem reyktu daglega og í Noregi 10,2 prósent, en samkvæmt upplýsingum Eurostat reykja 11,7 prósent Dana daglega.

Efstir á listanum yfir fjölda reykingamanna eru Búlgarir þar sem 28,7 prósent reykja daglega, þar af tæplega þrettán prósent tuttugu sígarettur eða fleiri.