Í október síðastliðnum seldust 37,8% íbúða í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu yfir ásettu verði og hefur hlutfallið aldrei mælst jafn hátt áður.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) en mánaðarskýrsla stofnunarinnar, þar sem fjallað er um öll helstu tíðindi um fasteignamarkaðinn á Íslandi, kemur út í dag.
Í skýrslu stofnunarinnar kemur fram að þó aðeins hafi dregið úr hlutfalli sérbýla sem selst yfir ásettu verði frá því í sumar er það hærra en fyrir íbúðir í fjölbýli, eða 38,8% og hækkar það lítillega á milli mánaða. Þá er vakin athygli á því að hlutfall íbúða í fjölbýli á landsbyggðinni, sem selst yfir ásettu verði, hefur hækkað hratt undanfarna mánuði. Það var 19,0% í október samanborið við 15,0% í ágúst og 7,4% í janúar. Í október síðastliðnum seldust 21,9% sérbýla á landsbyggðinni yfir ásettu verði.
Í skýrslunni kemur fram að á höfuðborgarsvæðinu virðist sérstaklega vera bitist um litlar og ódýrar eignir.
„Algengast er að minni íbúðir, 0-2 herbergja, seljist yfir ásettu verði en hlutfallið var ríflega 40% í október. Þá seldust 8,7% allra íbúða og nærri 11% minni íbúða á yfir 5% meira en ásett verð sem er mun meira en hefur áður tíðkast.“
Í skýrslu HMS kemur fram að framboð eftir minni og ódýrari íbúðum hafi dregist hraðar saman en framboð annarra íbúða. Nú séu um 17,5% allra íbúða til sölu minni íbúðir, það er 0-2 herbergja, en hlutfallið var nærri 29% í lok janúar. Þá eru aðeins níu 0-1 herbergja íbúðir til sölu á höfuðborgarsvæðinu öllu en þær voru yfir hundrað talsins í byrjun árs 2020.
Þá var meðalsölutími íbúða á höfuðborgarsvæðinu tæplega 37 dagar á íbúðum sem seldust í október og hefur hann aldrei mælst styttri. Þar af tók að jafnaði tæplega 35 daga að selja íbúðir í fjölbýli en rúma 43 daga að selja sérbýli. Á landsbyggðinni var meðalsölutíminn 62 dagar þar sem hann var 52 dagar í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins og 75 dagar annars staðar á landsbyggðinni.