Alls voru bálfarir 974 á Íslandi í fyrra en hlutfall þeirra af heildartölu látinna fari vaxandi, eins og fyrri ár. Alls létust 1.780 einstaklingar búsettir á Íslandi á síðasta ári og auk þess voru 74 einstaklingar, sem búsettir voru utan Íslands, fluttir til Íslands og grafnir á Íslandi. Frá þessu er greint í tilkynningu frá Kirkjugörðum Reykjavíkur en tekið er þó fram að um sé að ræða bráðabirgðatölur.

Þar kemur einnig fram að jarðsetningar duftkera voru rúmur helmingur jarðsetninga, eða 55,5 prósent, hjá Kirkjugörðum Reykjavíkurprófastsdæmanna og þar af leiðandi 44,5 prósent jarðsett í kistu.

Í tilkynningunni segir að frá árinu 2000 hafi miðlæga legstaðaskráin www.gardur.is verið starfrækt á Íslandi en Ísland er eina landið sem hefur komið upp slíkri skrá.

„Kirkjugarðasamband Íslands (KGSÍ) lét útbúa vefinn www.gardur.is á árunum fyrir síðustu aldamót og viðheldur honum. Alla einstaklinga, sem jarðsettir hafa verið hér á landi frá og með árinu 2000, má finna í legstaðaskránni, einnig þá sem búsettir voru utanlands og fluttir til greftrunar á Íslandi. Á gardur.is má einnig finna þá látnu einstaklinga sem áður höfðu verið skráðir í legstaðaskrár hinna ýmsu kirkjugarða landsins og varðveist hafa. Þessar legstaðaskrár, sem ná mislangt aftur, hafa verið slegnar inn á gardur.is og hafa í mörg undanfarin ár verið aðgengilegar á hinni miðlægu legstaðaskrá. Margar legstaðaskrár fyrir árið 2000 hafa því miður glatast og eru upplýsingar frá þeim kirkjugörðum því bundnar við árið 2000 og áfram.“

Þá kemur einnig fram að á vefnum megi finna bæði ævidrög og myndir af mörgum einstaklingum sem að ættingjar þeirra hafa sett inn.