Hlutastarfaleiðin fól í sér mestan kostnað á árinu 2020 fyrir ríkiskassann. Fólk fékk 152 milljarða í aðstoð en fyrirtæki 24 milljarða. Stærstu rekstrartilfærslur ríkissjóðs voru til atvinnuleysistryggingasjóðs eða 80 milljarðar, sjúkratryggingar námu 44,5 milljörðum og félagsleg aðstoð 27,5 milljörðum. Þetta kemur fram í nýjasta hefti Hagsjár, sem gefin er út af Hagfræðideild Landsbankans.

Þar segir að skuldir ríkissjóðs hafi aukist um um það bil 20 prósent að nafnvirði í faraldrinum.

Útgjöld vegna atvinnuleysis rúmlega þrefölduðust á árinu 2020, og útgjöld vegna félagslegrar aðstoðar jukust um 12 prósent, segir í ritinu. Þá er bent á að í fyrra hafi orðið til ný tegund tilfærslna sem var stuðningur við fyrirtæki og nam sá liður um 24 milljörðum króna. Má segja að meginþorrinn af útgjöldum ríkissjóðs vegna faraldursins hafi tengst vinnumarkaðnum, segir í Hagsjá.

Alls greiddi ríkissjóður ríflega 23 milljarða vegna 36 þúsund einstaklinga á árinu 2020 vegna hlutastarfaleiðarinnar. Næst stærsti útgjaldaliður ríkissjóðs var greiðsla til starfsfólks á uppsagnarfresti, en styrkir vegna þessa námu um 12 milljörðum.

Þriðji stærsti útgjaldaliðurinn var svo tekjufalls- og viðspyrnustyrkir til fyrirtækja, segir í Hagsjá.