Laugavegur milli Frakkastígs og Klapparstígs verður varanlega gerður að göngugötu með samþykkt skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur. Einnig Vatnsstígur frá Laugavegi að Hverfisgötu.

Samhliða á að endurnýja allt yfirborð gatnanna, hellur, gróður, götugögn og lýsingu.

Fulltrúar meirihluta Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata í ráðinu bókuðu að tillagan væri í samræmi við stefnu borgarstjórnar frá september 2018 um að gera Laugaveginn að varanlegri göngugötu allt árið. „Hér er verið að samþykkja annan áfanga sem nær yfir Laugaveg frá Klapparstíg að Frakkastíg auk Vatnsstígs,“ bentu þeir á.

Á kortinu má sjá þá hluta gatnanna sem verða varanlegar göngugötur.
Fréttablaðið/umbrot.

„Rjúkandi rústir á sviðinni jörð“

Tveir fullrúar Sjálfstæðisflokks í ráðinu greiddu atkvæði gegn tillögunni og einn sat hjá. Áheyrnarfulltrúar Miðflokks og Flokks fólksins bókuðu andmæli.

„Umrædd ákvörðun er verulega íþyngjandi fyrir rekstraraðila sem hafa mátt þola mikið tap vegna götulokana,“ bókaði áheyrnarfulltrúi Miðflokksins sem kvað Miðbæjarfélagið hafa bent á að borgin væri að brjóta bæði meðalhófsreglu og rannsóknarreglu. „Þrátt fyrir þessi sterku lögfræðirök heldur borgin áfram að böðlast á rekstraraðilum,“ bókaði fulltrúinn.

„Of mikil óbilgirni, harka hefur einkennt aðgerðir skipulagsyfirvalda þegar kemur að þessu máli. Eftir sitja rjúkandi rústir á sviðinni jörð, svekkelsi og djúpstæð reiði,“ bókaði áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins.

„Of mikil óbilgirni, harka hefur einkennt aðgerðir skipulagsyfirvalda þegar kemur að þessu máli. Eftir sitja rjúkandi rústir á sviðinni jörð, svekkelsi og djúpstæð reiði.“

Fjöldi athugasemda barst borginni vegna málsins. „Nú er mál til komið að borgaryfirvöld hlusti á þá sem staðið hafa vaktina í fyrirtækjum sínum í áratugi og hefji raunverulegt samráð um leiðir til að efla atvinnulíf og þar með mannlíf í miðbænum, því án blómlegra viðskipta er enginn miðbær,“ segir í ítarlegu erindi Miðbæjarfélagsins . Undir það skrifa 26 fyrirtæki.

„Til að miðbærinn geti verið samkeppnishæfur við verslunarmiðstöðvar hérlendis verður hann að vera aðgengilegur fyrir fólk sem þangað kemur akandi,“ segir Miðbæjarfélagið.

Umhverfis- og skipulagssvið borgarinnar tók saman svör við athugasemdunum. „Má nefna að það er oft lengra frá bílastæði til dæmis við Kringluna inn í verslanir en frá bílastæðahúsum við Laugaveg,“ segir í svörunum.

Segir gengið á mannréttindi Bolla

Ásgeir Bolli Kristinsson, sem hóf verslunarrekstur á Laugavegi 1976 með tískufatabúðinni Sautján, sendir einnig inn athugasemdir í gegn um lögmann sinn.

„Með því að þverbrjóta fyrirheit sín og ráðast í lokanir gatna og stórfellda fækkun bílastæða hafa borgaryfirvöld gengið á stjórnarskrárvarin mannréttindi umbjóðanda míns,“ segir í bréfi lögmannsins sem kveður Ásgeir Bolla eiga tvær fasteignir við Laugaveg, númer 89 og númer 19 þar sem hann búi.

„Verslun hefur átt sínar hæðir og lægðir í gegnum tíðina en með þessari breytingu er verið að gera Laugavegi hátt undir höfði sem verslunargötu,“ segir í svörum frá umhverfis- og skipulagssviði borgarinnar.