Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins í Suðurkjördæmi, segir að veiðigjaldið ætti að vera sjálfbært og að taka ætti til skoðunar að hluti þess renni til uppbyggingar í heimabyggð þeirra fyrirtækja sem greiða gjaldið. Hann segir Samherjamálið áfall fyrir íslenskt atvinnulíf í grein sem birtist í Eyjafréttum í dag.

Mikilvægt sé að stjórnvöld tryggi góð rekstrarskilyrði sjávarútvegs. „Um 79 prósent atvinnutekna í fiskveiðum og vinnslu kemur frá launafólki á landsbyggðinni,“ segir Birgir.

Hann segir að umfjöllun fréttaskýringarþáttarins Kveiks um meinta viðskiptahætti Samherja með veiðiheimildir í Namibíu hafi sett sig hljóðan. Íslendingar séu fiskveiðiþjóð sem hefur orðið fyrir álitshnekki vegna málsins.

„Í viðskiptum sem öðru skiptir orðsporið miklu. Málið vekur upp margar spurningar, sem meðal annars lúta að ráðstöfun arðsins af okkar mikilvægustu auðlind, fiskinum í sjónum. Aflaheimildir eru verðmæti sem ganga kaupum og sölum.  Ríkissjóður fær afgjald af nýtingu auðlindarinnar í formi veiðigjalds,“ segir Birgir og vitnar í á greinargerð með lögum um veiðigjöld frá 2018 sem voru sett í tíð núverandi ríkisstjórnar.

„Hugtakið sanngjarnt kemur óneitanlega upp í hugann nú þegar sjávarútvegsfyrirtækið Samherji hefur orðið uppvíst af meintum mútugreiðslum við kaup á veiðiheimildum í Afríku. Ein af þeim spurningum sem vakna, eftir umfjöllunina, er hvort ríkissjóður fái eftir allt saman sanngjarna hlutdeild af sjávarauðlindinni okkar. Það er að minnsta kosti ljóst að stórt íslenskt sjávarútvegsfyrirtæki var reiðubúið að greiða mun hærra verð fyrir aðgang að fiskveiðiauðlindinni við strendur Namibíu heldur en greiða þarf í íslenskri lögsögu og beita meintum ólöglegum viðskiptaháttum til þess að komast yfir veiðiheimildir. Samherjamálið verður að rannsaka til hlítar. Staðreyndir málsins verða að koma sem fyrst upp á yfirborðið, frá réttum og þar til bærum aðilum.“

Hann segir það á ábyrgð stjórnmálamanna að lágmarka skaðann með ábyrgum aðgerðum og málflutningi.