„Ég vona að þetta sé merki um að börn séu að fá meira vægi í málefnum sem þau varða,“ segir Bryndís Ýr Sigurþórsdóttir, 17 ára fulltrúi í Ungmennaráði Reykjavíkur.

Bryndís, ásamt fimm öðrum úr ungmennaráðum landsins sem mynda félagið Umbi, hefur unnið að skýrslu um ýmis málefni tengd mannréttindum barna á Íslandi.

Skýrslan verður kynnt fyrir Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna í dag ásamt skýrslu níu frjálsra félagasamtaka um stöðu mannréttinda barna á Íslandi. Aldrei fyrr hefur skýrsla um mannréttindi unnin af börnum verið kynnt fyrir nefndinni.

Málefni sem börnin kusu að fjalla um í skýrslunni eru geðheilbrigði, samskipti við lögreglu, staða fatlaðra barna, aðgengi að eiturlyfjum, hinsegin börn og börn með fjölbreyttan menningarlegan og tungumálabakgrunn, kynferðislegt ofbeldi og ofbeldi á netinu.

Bryndís segir börnin hafa verið sammála þegar kom að vali á málefnum, þau séu öll mikilvæg núna.

„Til dæmis kynferðislegt ofbeldi og ofbeldi á netinu, langflestir í kringum mig hafa fengið eitthvað óviðeigandi sent eða lent í einhvers konar ofbeldi á netinu en mjög fáir kæra eða hafa samband við lögreglu,“ segir Bryndís. „Það hefur enginn trú á því að eitthvað sé gert í svona málum og börn vita ekki hvernig þau eiga að fara að eða hvað gerist í framhaldinu,“ bætir hún við.

Þá segir Bryndís mikilvægt að veita börnum hljómgrunn þegar málefni þeim tengd séu rædd og að skýrslan sé mikilvægur þáttur í því.

„Maður fær það oft á tilfinninguna að það sé sóst eftir skoðunum okkar og við fengin á ýmsa fundi til að fólk lítið betur út en svo er ekkert endilega tekið mark á því sem við höfum að segja,“ segir Bryndís og tekur dæmi um styttingu framhaldsskólanáms.

„Þegar ákveðið var að stytta framhaldsskólann voru engin börn spurð um það, þeir eldri létu bara eins og þeir vissu allt um það.“

„Núna fáum við að kynna skýrsluna beint fyrir nefndinni sem hefur raunveruleg áhrif, ber ábyrgð og hefur vald til að gera breytingar,“ segir Bryndís.

Í skýrslunni er hvert málefni tekið fyrir á skilmerkilegan hátt þar sem upplifun barnanna er tekin fyrir, ásamt því að talað er við sérfræðinga á sviði málefnanna, vitnað er í rannsóknir og komið er með tillögur að úrbótum.

Aðspurð segist Bryndís vongóð um að tekið verði vel í tillögurnar í skýrslunni og að einhverjar breytingar muni eiga sér stað.

„Ef það gerist ekki þá munum við bara halda áfram að berjast fyrir því og láta í okkur heyra. En ég held að fólk sé opið fyrir þessu. Við stingum til dæmis upp á aukinni og fjölbreyttari kynfræðslu í skólum og það er strax farið að vinna að því.“