Aðalheiður Ámundadóttir
aa@frettabladid.is
Föstudagur 13. maí 2022
23.00 GMT

Þessi dagur verður stór­kost­legur, ég hlakka mjög mikið til,“ segir Gísli Marteinn Baldurs­son, sjón­varps­maður og borgaraktív­isti, sem lýsir Euro­vision í kvöld og vakir svo í kjöl­farið til morguns í Tórínó til að sjá hvar at­kvæðin í borgar­stjórnar­kosningunum lenda

Gísli var sjálfur borgar­full­trúi í ára­tug. Hann menntaði sig í borgar­fræðum í Edin­borg og Harvard, var ár á báðum stöðum, og ást­ríða hans fyrir Reykja­vík hefur varla farið fram hjá neinum.

Alls staðar þar sem Gísli Marteinn fer fylgir for­vitni. Hvaðan kemur þessi mikli á­hugi á sam­fé­laginu og þessi for­vitni?

„Varðandi borgar­málin þá kom á­huginn á Reykja­vík sjálfri alltaf á undan stjórn­málunum. Ég hef aldrei haft neinn einasta á­huga á að vera á Al­þingi en hef haft brennandi á­huga á borgum mjög lengi. Það gerist ekki af því að ég hafi mikinn á­huga á reið­hjólum eða strætó, heldur þvert á móti þá heillaðist ég svo rosa­lega af risa­vöxnum fimm hæða mis­lægum gatna­mótum í Banda­ríkjunum þegar ég var þar með for­eldrum mínum tólf ára,“ segir Gísli og bætir við: „Ég vildi fá mis­læg gatna­mót á Miklu­braut og Kringlu­mýrar­braut.“

Hann viður­kennir einnig að há­hýsi hafi líka heillað hann og geri í raun enn, þar sem þau eigi heima. Hann spilaði SimCity og naut þess að byggja þar upp borgir og sjá upp­bygginguna birtast fyrir augum sér. Hann áttaði sig þó smám saman á því að fleiri hliðar voru á flóknum málum en hann hafði tekið með í reikninginn.


„Þá heillaðist ég svo rosa­lega af risa­vöxnum fimm hæða mis­lægum gatna­mótum í Banda­ríkjunum þegar ég var þar með for­eldrum mínum tólf ára.“


Hlustaði á Ingibjörgu Sólrúnu og skipti um skoðun

„Við það að vera í borgar­málunum, sitja í borgar­stjórn og hlusta á annað fólk eins og Ingi­björgu Sól­rúnu og marga aðra borgar­full­trúa sem voru búnir að vera lengi í þessu, þá sá ég bara smám saman að þær leiðir sem ég hélt að væru bestar til að gera borgir betri, voru það ekkert endi­lega.“ Þetta átti ekki síst við um sam­göngu­málin. „Fyrir mér var aldrei eitt­hvert mark­mið að það væri mikil bíla­um­ferð þó svo að ég hafi hrifist af stórum verk­legum fram­kvæmdum. Þannig að um leið og ég fattaði að mis­læg gatna­mót gera bara um­ferðar­teppurnar verri, þá bara skipti ég um skoðun.“

Gísli Marteinn var kosinn í borgar­stjórn 2006, eftir nokkur ár sem vara­maður. Eftir að hann hætti árið 2014 hefur hann haldið á­fram að beita sér fyrir bættri borg.


„Um leið og ég fattaði að mis­læg gatna­mót gera bara um­ferðar­teppurnar verri, þá bara skipti ég um skoðun.“


„Lengi vel var fullt af fólki og borgar­full­trúar þar á meðal sem tók þessi mál alls ekki al­var­lega, fannst þetta bara vera ein­hver stökk­pallur og hékk bara inni í borgar­stjórn til að vera gilt á lands­fundum. Mark­miðið þeirra var alltaf að komast á Al­þingi. Drævið var pólitíkin en ekki borgar­málin.“ Upp­á­halds­borgar­full­trúar Gísla í gegnum tíðina eigi það þó sam­eigin­legt að borgar­málin brenna á þeim á undan pólitíkinni.

„Þegar ég datt inn í borgar­málin var ég með fullt af röngum sjónar­miðum og hélt að málin væru ein­hvern veginn og svo voru þau bara ein­hvern veginn allt öðru­visi. Sem betur fer var ég ekki með lokuð eyrun heldur fór ég að hlusta á fólk og ef maður hlustar tekur maður þeim rökum sem eru lögð á borðið fyrir mann og ég bara gerði það. Ég held að flest fólk sem hefur raun­veru­lega á­huga á því að gera Reykja­vík betri sé nokkurn veginn á sömu línu. Svo er bara fólk sem hefur ekki þann á­huga.“

Hlustaði á dæturnar og hætti að borða kjöt

Að­spurður segir Gísli þessa virku hlustun skýrast af miklum á­huga á öðru fólki.

„Mér finnst ég sjálfur alltaf tala of mikið og hlusta of lítið. Ég er samt búinn að læra að hlusta meira á dætur mínar. Þær og Vala, konan mín, hafa haft mikil á­hrif á skoðanir mínar. Ég hætti að borða kjöt af því ég tapaði þeirri um­ræðu við eld­hús­borðið heima hjá mér. Ég bara sá að dætur mínar hafa rétt fyrir sér með þetta eins og flest annað og þá er bara mikil gleði í því að breyta rétt í lífinu og reyna að verða betri manneskja og ég held að til þess að gera það verði maður að hlusta.“

Elísabet Unnur, Vigdís Freyja, Vala Ágústa og Gísli Marteinn með hundinn Tinna skömmu áður en hann féll frá.
Úr einkasafni

Það var eins með borgar­málin. „Þar var fólk sem var ekkert tengt mér, sem opnaði það, eins og ég hef nefnt með Ingi­björgu Sól­rúnu. Ég get líka nefnt Sól­eyju Tómas­dóttur sem opnaði fyrir mér hugsun um femín­isma og kvenna­bar­áttu. Svo elska ég sam­fé­lags­miðla af því að mér finnst svo margar flottar skoðanir sem koma þar fram. Bæði á Twitter og Insta­gram er fólk sem er með rosa­lega sterkar skoðanir á alls konar hlutum, sumt af því al­ger­lega þver­öfugt við það sem mér finnst, en fólk sem er rót­tækt og er að berjast fyrir ein­hverjum mál­efnum, ég bara dáist að því og mig langar til að reyna að fatta af hverju þeim finnst þetta.“

Háður af­hjúp­andi við­tölum

For­vitnin um fólk hefur fylgt Gísla frá barns­aldri. „Ég var ger­sam­lega háður opin­berandi for­síðu­við­tölum, það er að segja, ekki til að vera í þeim heldur að lesa þau,“ segir Gísli sem ólst upp á gull­aldar­tíma ís­lenskra glans­tíma­rita á borð við Heims­mynd, Mann­líf og Nýtt Líf. „Ég las þetta allt upp til agna, tætti þetta í mig og veit því allt um einka­líf fegurðar­drottninga áttunnar sem voru á for­síðum þessa tíma­rita. Svo tók ég upp alla þætti Hemma Gunn á VHS og horfði á þá aftur og aftur. Ég spólaði bara yfir tón­listar­at­riðin því það voru við­tölin sem mér fannst svo skemmti­leg.“

Gísli Marteinn er alinn upp í Hólunum í Breið­holti, gekk í Hóla­brekku­skóla og bjó í hverfinu til tví­tugs þegar hann flutti í Vestur­bæinn. „Það var stór­kost­legt að alast upp í Breið­holti. Það hverfi var þá að byggjast upp fyrir augunum á okkur. Ef maður hefur á­huga á um­hverfi sínu þá sér maður sam­fé­lagið verða til og þróast og það heillaði mig mjög mikið,“ segir Gísli sem var sjálfur sann­færður um að hann yrði í Breið­holti alla sína ævi. Hann fór í Versló sex­tán ára og flutti ekki úr átt­högunum fyrr en á há­skóla­árunum þegar langt var að ferðast á hjóli ofan úr Breið­holti niður í há­skóla.

„Ég held að það hafi alltaf fylgt mér að hafa bara mjög mikinn á­huga á mínu nánasta um­hverfi. Ég til dæmis skrifaði masters­rit­gerðina mína í borgar­fræðunum um götuna sem ég bjó í, í Edin­borg. Nú er ég búinn að búa á Mel­haganum í 20 ár og búinn að lesa allt sem ég get lesið um sögu þeirrar götu, hvernig hún varð til og hverjir hafa búið í henni og hef mjög mikinn á­huga á fólkinu sem býr í henni nú, “ segir Gísli sem stofnaði bæði götugrill og kaffi­hús við götuna sína.

Gísli Marteinn tók þátt í að opna Kaffi Vest árið 2014. Hér er hann að heilsa upp á kollega sinn í Tórínó.
Mynd/Gísli Berg

Allir vilja hverfisbúð og kaffihús

Gísli hefur verið virkur í fé­lags­lífi alla ævi, fyrst í fót­bolta og fallinni spýtu, svo í ræðu­keppnum mennta­skóla­áranna og með Vöku í há­skólanum. Kannski er það fé­lags­lyndið sem býr að baki borgar¬ást­ríðunni.

„Ég var alltaf í sveit á sumrin og elska sveitina. En þegar ég er í bænum vil ég njóta allra kostanna við að vera í borg. Búa í sam­fé­lagi þar sem er stutt að fara milli staða, hitta fólk á förnum vegi. Ég vil að krakkarnir séu örugg þegar þau fara út og það séu „augu á götunni“ eins og sagt er. Margir ná­grannar að fylgjast með sem hjálpast að við að ala þessi börn upp og hverfið allt.“

Gísli segir þetta hafa verið rauðan þráð á þeim ó­teljandi fundum sem hann sótti í öllum hverfum Reykja­víkur þann ára­tug sem hann var í borgar­stjórn. Fólk í öllum hverfum vildi hafa hverfis­búð, hverfiskaffi­hús og hverfi­skrá.

Þetta eigi ekki að­eins við um íbúa allra hverfa í Reykja­vík heldur líka íbúa allra bæja á Ís­landi og alls staðar í heiminum.


„Við vitum hvað þarf til að kaup­maðurinn á horninu virki. Það þarf fólk að búa ná­lægt þessu horni, til að það komi labbandi í búðina.“


„Og þetta er ekkert flókið. Við vitum hvað þarf til að kaup­maðurinn á horninu virki. Það þarf fólk að búa ná­lægt þessu horni, til að það komi labbandi í búðina.“

Og hér nefnir Gísli stórt vanda­mál. Fé­lags­lega ein­angrun fólks og nei­kvæð á­hrif hennar á sam­fé­lagið.

„Að byggja um­hverfi sem leiðir til fé­lags­legrar þátt­töku, til þess að þú hittir ein­hvern, hvort sem það er konan sem af­greiðir þig í versluninni eða gaurinn sem býr til kaffi handa þér á morgnana eða kennararnir í skólanum sem þú ferð með krakkana þína í. Þetta eru allt svona til­viljana­kennd, fé­lags­leg tengsl sem skipta öllu máli fyrir okkur sem sam­fé­lag.“

Gísli nefnir ein­angrun kvenna sem varð í kjöl­far bíla­byltingarinnar þegar hrað­brautir í Reykja­vík gerðu það kleift að byggja hverfi langt í burtu frá mið­borginni. Þangað fluttu fjöl­skyldur og á meðan karlinn brunaði í vinnuna á eina bíl heimilisins var konan ein­angruð heima.

Það má halda fram hjá í borgar­stjórnar­kosningum

Gísli segist sann­færður um að Reykja­vík sé að þróast í rétta átt og nefnir að á fundi sam­taka um bíl­lausan lífs­stíl á dögunum hafi odd­vitar allra flokka í Reykja­vík verið sam­mála um að bæta þurfi al­mennings­sam­göngur og draga úr bíla­um­ferð. „Þetta er alveg glæ­nýtt. Svo ráða kjós­endur hverjum þeir trúa í þessum efnum en það er engin spurning að fyrir bara ör­fáum mánuðum hefðu þau ekki öll svarað þessu svona. Svo eru í öllum flokkunum mis­stórir hópar auð­vitað sem róa í þver­öfuga átt.

Er þetta kannski á­stæða þess að fólk hagar at­kvæði sínu oft með allt öðrum hætti í sveitar­stjórnar­kosningum en þing­kosningum?

„Já, og í sveitar­stjórnar­kosningum er fólk meira til í að halda fram hjá flokknum sínum og það er meira leyfi til að prófa aðra hluti.“ Hann nefnir sem dæmi per­sónu­fylgi Davíðs Odds­sonar sem tryggði Sjálf­stæðis­flokknum 60 prósent at­kvæða 1990. Stór­sigur Jóns Gnarr 2010 og hve miklu stærri Sam­fylkingin er í Reykja­vík en á lands­vísu.

Kaus í Köben og tók kjörseðilinn með sér til Tórínó

Sjálfur þurfti Gísli að hafa fyrir sínu at­kvæði. Ís­lenski Euro­vision-hópurinn flaug til Tórínó að­fara­nótt síðasta laugar­dags og í stað þess að senda föstu­dags­þátt Gísla, Vikuna, beint út eins og venjan er, var hann tekinn upp fyrr um daginn. Gísli hafði þá hugsað sér að fara í Holta­garða og kjósa eftir tökur á þættinum.

„Svo tók eftir­vinnslan tölu­verðan tíma þannig að ég var að koma út úr út­varps­húsinu á slaginu átta og fattaði þá að Holta­garðar lokuðu klukkan átta. Þá voru góð ráð dýr og ég fór að gúggla ræðis­manninn í Mílanó, en áttaði mig svo á að við vorum með þriggja tíma stopp á Kastrup á leiðinni hingað út. Þegar við lentum þar hljóp ég út og inn í leigu­bíl, og fór á honum í ís­lenska sendi­ráðið sem var með sér­staka opnun út af kosningunum. Þar lét ég leigu­bílinn bíða meðan ég fór inn og kaus. En ég þurfti að koma at­kvæðinu mínu sjálfur til skila heim og þar sem ég vildi ekki missa af fluginu til Mílanó, tók ég at­kvæðið með mér inn í leigu­bílinn, út á Kastrup og upp í vél. Þegar hingað til Tórínó var komið leitaði ég svo og fann DHL-hrað­sendingar­þjónustu og sendi at­kvæðið þannig heim. Nú er ég búinn að fá ljós­mynd til sönnunar á að því hafi verið veitt við­taka.

Það er ansi vel í lagt?

„Já, ég geri hvað sem er fyrir góða Reykja­vík.“

Góð staða fyrir fjölmiðlamann að enginn eigi mann

Það kom í ljós í borgar­full­trúa­tíð Gísla Marteins hve oft hann sigldi á móti straumnum í eigin flokki. Hann var borgar­full­trúi fyrir Sjálf­stæðis­flokkinn og mætti oft and­stöðu meðal flokks­fé­laga sinna við þá stefnu sem hann tók í borgar­málum. Hann hefur heldur ekki farið leynt með dá­læti sitt á stjórn­mála­fólki í öðrum flokkum.

„Það koma jafn­margar kvartanir undan því upp á RÚV hvað ég sé mikill Sjálf­stæðis­maður og undan því hvað ég sé vondur við Sjálf­stæðis­flokkinn,“ segir hann og segir það góða stöðu að vera í fyrir fjöl­miðla­mann, að enginn eigi mann. „Mér finnst það mjög góð staða að vera í að vita sjálfur ekkert endi­lega fyrir kosningar hvað ég ætla að kjósa en þurfa bara að taka af­stöðu til málanna. En ég var ekki lengi að greiða at­kvæði núna og er mjög á­nægður með það sem ég kaus.“


„Ég var ekki lengi að greiða at­kvæði núna og er mjög á­nægður með það sem ég kaus.“


„Kosninga­kvöld eru hei­lög“

Gísli er ekki síður á­huga­maður um kosningar og kosninga­sjón­varp en borgar­mál og Euro­vision.

„Kosninga­kvöld eru al­ger­lega hei­lög kvöld. Þetta verður náttúr­lega svo furðu­legt kvöld núna. Kosninga­sjón­varpið byrjar klukkan tíu og þá klára Euro­vision-að­dá­endur með mér á RÚV 2. Ég fer svo lóð­beint yfir í kosninga­sjón­varpið til að fylgjast með því.“

Heimarnir tveir, Eurovision og borgaástríðan, mætast á hverju ári í nýrri borg. Nú í Tórínó á Ítalíu.
Mynd/Gísli Berg

Systurnar brilleruðu eins og Olsen-bræður

Systurnar komust upp úr sínum undan­riðli í Eurovision á þriðju­dag og taka þátt í úr­slita­kvöldinu í kvöld.

Gísli segir ís­lenska hópinn úti hafa verið undir allt búinn og að væntingarnar hafi verið í hófi. Hann hafi hins vegar fengið mjög góða til­finningu þegar Systurnar fluttu sitt at­riði í beinni. At­riðin á undan þeim hafi ekki verið að gera sitt besta.

„En svo koma okkar stelpur og ger­sam­lega negla sinn per­for­mans. Höllin tók við sér í okkar lagi og ég bara í­myndaði mér og mér fannst ég bara finna ein­hvern veginn að Evrópa hefði svarað þessu lagi vel.“

Gísli Marteinn segist áður hafa séð svona augna­blik í Euro­vision og nefnir Ol­sen-bræður sem dæmi.

„Þeim hafði hvergi neins staðar verið spáð ná­lægt því að sigra. Svo bara gerist eitt­hvað í flutningnum, því þótt þetta sé risa­stór sjón­varps­þáttur þá eru þetta, þegar upp er staðið, bara lista­menn á sviði að syngja í míkró­fón og annað hvort tekst þeim vel upp eða ekki. Og stundum bara gerist eitt­hvað. Ein­hverjir töfrar.“

En hvað er Euro­vision?

„Þú getur bæði tekið stóru myndina og sagt bara þetta er merki­legasti menningar­við­burður í Evrópu en þú getur líka tekið minni myndina og sagt, þetta er sjón­varps­þáttur. Hvort tveggja er rétt. Í eðli sínu er þetta náttúr­lega bara sjón­varps­þáttur sem byrjaði meira að segja bara sem út­varps­þáttur en hefur vaxið yfir í eitt­hvað annað. Núna endur­speglast í hverri keppni, á hverju einasta ári, eitt­hvað sem er að gerast í álfunni. Armenía og Aserbaís­jan gefa hvort öðru aldrei stig, á­huga­fólk um Euro­vision veit mjög vel um deilurnar milli þessara tveggja landa og betur en flestir Evrópu­búar.Að­dá­endur Euro­vision vita vel hvar stór hluti Albana býr því það sést á því hvernig er kosið.“

Gísli nefnir líka mikla pólitík í kringum Ír­land og Norður-Ír­land. „Írar senda mjög oft Norður-Íra í Euro­vision, sem eru náttúr­lega bara Bretar sem eru líka að keppa.

Þannig að það er hægt að fara mjög djúpt í pólitíkina í Euro­vision. Mér finnst það skemmti­legt. Ekkert endi­lega bara fyrir lýsinguna heldur fyrir mig sjálfan að læra meira um álfuna í gegnum þennan skemmti­lega kíki.“

Þegar Macron reyndi að beita sér fyrir frönskum sigri

Gísli segir á­hugann á Euro­vision um alla Evrópu mun meiri en Ís­lendingar kannski haldi.

„Okkur Ís­lendingum finnst gaman að segja að við séum þau einu sem horfum á Euro­vision en það er auð­vitað bara alls ekki rétt. Úr­slita­kvöldið er á aðal­rásinni hjá öllum Evrópu­þjóðum.“ Gísli vísar í ný­lega um­fjöllun BBC máli sínu til stuðnings.

„Þar er meðal annars sögð saga af því að franski lýsandinn, sem er búinn að vera í þessu djobbi mjög lengi, fékk sím­tal frá Macron for­seta sem sagði: „Heyrðu, ítalski gæinn var að taka kókaín, Frakk­land á að vinna þetta, geturðu ekki gert eitt­hvað?“


„Heyrðu, ítalski gæinn var að taka kókaín, Frakk­land á að vinna þetta, geturðu ekki gert eitt­hvað?“


Svona sím­tal fékk sem sagt kollegi minn og þetta er dæmi um hvað fólk hefur mikinn á­huga á þessu.“

Sjálfur er Gísli Marteinn að farast úr spenningi fyrir bæði Eurovision og kosningunum. „Þetta verður stór­kost­legur dagur því þegar allt kemur til alls snýst þetta hvort tveg­ga um að gera sam­fé­lagið betra.“

Athugasemdir