Þessi dagur verður stórkostlegur, ég hlakka mjög mikið til,“ segir Gísli Marteinn Baldursson, sjónvarpsmaður og borgaraktívisti, sem lýsir Eurovision í kvöld og vakir svo í kjölfarið til morguns í Tórínó til að sjá hvar atkvæðin í borgarstjórnarkosningunum lenda
Gísli var sjálfur borgarfulltrúi í áratug. Hann menntaði sig í borgarfræðum í Edinborg og Harvard, var ár á báðum stöðum, og ástríða hans fyrir Reykjavík hefur varla farið fram hjá neinum.
Alls staðar þar sem Gísli Marteinn fer fylgir forvitni. Hvaðan kemur þessi mikli áhugi á samfélaginu og þessi forvitni?
„Varðandi borgarmálin þá kom áhuginn á Reykjavík sjálfri alltaf á undan stjórnmálunum. Ég hef aldrei haft neinn einasta áhuga á að vera á Alþingi en hef haft brennandi áhuga á borgum mjög lengi. Það gerist ekki af því að ég hafi mikinn áhuga á reiðhjólum eða strætó, heldur þvert á móti þá heillaðist ég svo rosalega af risavöxnum fimm hæða mislægum gatnamótum í Bandaríkjunum þegar ég var þar með foreldrum mínum tólf ára,“ segir Gísli og bætir við: „Ég vildi fá mislæg gatnamót á Miklubraut og Kringlumýrarbraut.“
Hann viðurkennir einnig að háhýsi hafi líka heillað hann og geri í raun enn, þar sem þau eigi heima. Hann spilaði SimCity og naut þess að byggja þar upp borgir og sjá uppbygginguna birtast fyrir augum sér. Hann áttaði sig þó smám saman á því að fleiri hliðar voru á flóknum málum en hann hafði tekið með í reikninginn.
„Þá heillaðist ég svo rosalega af risavöxnum fimm hæða mislægum gatnamótum í Bandaríkjunum þegar ég var þar með foreldrum mínum tólf ára.“
Hlustaði á Ingibjörgu Sólrúnu og skipti um skoðun
„Við það að vera í borgarmálunum, sitja í borgarstjórn og hlusta á annað fólk eins og Ingibjörgu Sólrúnu og marga aðra borgarfulltrúa sem voru búnir að vera lengi í þessu, þá sá ég bara smám saman að þær leiðir sem ég hélt að væru bestar til að gera borgir betri, voru það ekkert endilega.“ Þetta átti ekki síst við um samgöngumálin. „Fyrir mér var aldrei eitthvert markmið að það væri mikil bílaumferð þó svo að ég hafi hrifist af stórum verklegum framkvæmdum. Þannig að um leið og ég fattaði að mislæg gatnamót gera bara umferðarteppurnar verri, þá bara skipti ég um skoðun.“
Gísli Marteinn var kosinn í borgarstjórn 2006, eftir nokkur ár sem varamaður. Eftir að hann hætti árið 2014 hefur hann haldið áfram að beita sér fyrir bættri borg.
„Um leið og ég fattaði að mislæg gatnamót gera bara umferðarteppurnar verri, þá bara skipti ég um skoðun.“
„Lengi vel var fullt af fólki og borgarfulltrúar þar á meðal sem tók þessi mál alls ekki alvarlega, fannst þetta bara vera einhver stökkpallur og hékk bara inni í borgarstjórn til að vera gilt á landsfundum. Markmiðið þeirra var alltaf að komast á Alþingi. Drævið var pólitíkin en ekki borgarmálin.“ Uppáhaldsborgarfulltrúar Gísla í gegnum tíðina eigi það þó sameiginlegt að borgarmálin brenna á þeim á undan pólitíkinni.
„Þegar ég datt inn í borgarmálin var ég með fullt af röngum sjónarmiðum og hélt að málin væru einhvern veginn og svo voru þau bara einhvern veginn allt öðruvisi. Sem betur fer var ég ekki með lokuð eyrun heldur fór ég að hlusta á fólk og ef maður hlustar tekur maður þeim rökum sem eru lögð á borðið fyrir mann og ég bara gerði það. Ég held að flest fólk sem hefur raunverulega áhuga á því að gera Reykjavík betri sé nokkurn veginn á sömu línu. Svo er bara fólk sem hefur ekki þann áhuga.“
Hlustaði á dæturnar og hætti að borða kjöt
Aðspurður segir Gísli þessa virku hlustun skýrast af miklum áhuga á öðru fólki.
„Mér finnst ég sjálfur alltaf tala of mikið og hlusta of lítið. Ég er samt búinn að læra að hlusta meira á dætur mínar. Þær og Vala, konan mín, hafa haft mikil áhrif á skoðanir mínar. Ég hætti að borða kjöt af því ég tapaði þeirri umræðu við eldhúsborðið heima hjá mér. Ég bara sá að dætur mínar hafa rétt fyrir sér með þetta eins og flest annað og þá er bara mikil gleði í því að breyta rétt í lífinu og reyna að verða betri manneskja og ég held að til þess að gera það verði maður að hlusta.“

Það var eins með borgarmálin. „Þar var fólk sem var ekkert tengt mér, sem opnaði það, eins og ég hef nefnt með Ingibjörgu Sólrúnu. Ég get líka nefnt Sóleyju Tómasdóttur sem opnaði fyrir mér hugsun um femínisma og kvennabaráttu. Svo elska ég samfélagsmiðla af því að mér finnst svo margar flottar skoðanir sem koma þar fram. Bæði á Twitter og Instagram er fólk sem er með rosalega sterkar skoðanir á alls konar hlutum, sumt af því algerlega þveröfugt við það sem mér finnst, en fólk sem er róttækt og er að berjast fyrir einhverjum málefnum, ég bara dáist að því og mig langar til að reyna að fatta af hverju þeim finnst þetta.“
Háður afhjúpandi viðtölum
Forvitnin um fólk hefur fylgt Gísla frá barnsaldri. „Ég var gersamlega háður opinberandi forsíðuviðtölum, það er að segja, ekki til að vera í þeim heldur að lesa þau,“ segir Gísli sem ólst upp á gullaldartíma íslenskra glanstímarita á borð við Heimsmynd, Mannlíf og Nýtt Líf. „Ég las þetta allt upp til agna, tætti þetta í mig og veit því allt um einkalíf fegurðardrottninga áttunnar sem voru á forsíðum þessa tímarita. Svo tók ég upp alla þætti Hemma Gunn á VHS og horfði á þá aftur og aftur. Ég spólaði bara yfir tónlistaratriðin því það voru viðtölin sem mér fannst svo skemmtileg.“
Gísli Marteinn er alinn upp í Hólunum í Breiðholti, gekk í Hólabrekkuskóla og bjó í hverfinu til tvítugs þegar hann flutti í Vesturbæinn. „Það var stórkostlegt að alast upp í Breiðholti. Það hverfi var þá að byggjast upp fyrir augunum á okkur. Ef maður hefur áhuga á umhverfi sínu þá sér maður samfélagið verða til og þróast og það heillaði mig mjög mikið,“ segir Gísli sem var sjálfur sannfærður um að hann yrði í Breiðholti alla sína ævi. Hann fór í Versló sextán ára og flutti ekki úr átthögunum fyrr en á háskólaárunum þegar langt var að ferðast á hjóli ofan úr Breiðholti niður í háskóla.
„Ég held að það hafi alltaf fylgt mér að hafa bara mjög mikinn áhuga á mínu nánasta umhverfi. Ég til dæmis skrifaði mastersritgerðina mína í borgarfræðunum um götuna sem ég bjó í, í Edinborg. Nú er ég búinn að búa á Melhaganum í 20 ár og búinn að lesa allt sem ég get lesið um sögu þeirrar götu, hvernig hún varð til og hverjir hafa búið í henni og hef mjög mikinn áhuga á fólkinu sem býr í henni nú, “ segir Gísli sem stofnaði bæði götugrill og kaffihús við götuna sína.

Allir vilja hverfisbúð og kaffihús
Gísli hefur verið virkur í félagslífi alla ævi, fyrst í fótbolta og fallinni spýtu, svo í ræðukeppnum menntaskólaáranna og með Vöku í háskólanum. Kannski er það félagslyndið sem býr að baki borgar¬ástríðunni.
„Ég var alltaf í sveit á sumrin og elska sveitina. En þegar ég er í bænum vil ég njóta allra kostanna við að vera í borg. Búa í samfélagi þar sem er stutt að fara milli staða, hitta fólk á förnum vegi. Ég vil að krakkarnir séu örugg þegar þau fara út og það séu „augu á götunni“ eins og sagt er. Margir nágrannar að fylgjast með sem hjálpast að við að ala þessi börn upp og hverfið allt.“
Gísli segir þetta hafa verið rauðan þráð á þeim óteljandi fundum sem hann sótti í öllum hverfum Reykjavíkur þann áratug sem hann var í borgarstjórn. Fólk í öllum hverfum vildi hafa hverfisbúð, hverfiskaffihús og hverfiskrá.
Þetta eigi ekki aðeins við um íbúa allra hverfa í Reykjavík heldur líka íbúa allra bæja á Íslandi og alls staðar í heiminum.
„Við vitum hvað þarf til að kaupmaðurinn á horninu virki. Það þarf fólk að búa nálægt þessu horni, til að það komi labbandi í búðina.“
„Og þetta er ekkert flókið. Við vitum hvað þarf til að kaupmaðurinn á horninu virki. Það þarf fólk að búa nálægt þessu horni, til að það komi labbandi í búðina.“
Og hér nefnir Gísli stórt vandamál. Félagslega einangrun fólks og neikvæð áhrif hennar á samfélagið.
„Að byggja umhverfi sem leiðir til félagslegrar þátttöku, til þess að þú hittir einhvern, hvort sem það er konan sem afgreiðir þig í versluninni eða gaurinn sem býr til kaffi handa þér á morgnana eða kennararnir í skólanum sem þú ferð með krakkana þína í. Þetta eru allt svona tilviljanakennd, félagsleg tengsl sem skipta öllu máli fyrir okkur sem samfélag.“
Gísli nefnir einangrun kvenna sem varð í kjölfar bílabyltingarinnar þegar hraðbrautir í Reykjavík gerðu það kleift að byggja hverfi langt í burtu frá miðborginni. Þangað fluttu fjölskyldur og á meðan karlinn brunaði í vinnuna á eina bíl heimilisins var konan einangruð heima.
Það má halda fram hjá í borgarstjórnarkosningum
Gísli segist sannfærður um að Reykjavík sé að þróast í rétta átt og nefnir að á fundi samtaka um bíllausan lífsstíl á dögunum hafi oddvitar allra flokka í Reykjavík verið sammála um að bæta þurfi almenningssamgöngur og draga úr bílaumferð. „Þetta er alveg glænýtt. Svo ráða kjósendur hverjum þeir trúa í þessum efnum en það er engin spurning að fyrir bara örfáum mánuðum hefðu þau ekki öll svarað þessu svona. Svo eru í öllum flokkunum misstórir hópar auðvitað sem róa í þveröfuga átt.
Er þetta kannski ástæða þess að fólk hagar atkvæði sínu oft með allt öðrum hætti í sveitarstjórnarkosningum en þingkosningum?
„Já, og í sveitarstjórnarkosningum er fólk meira til í að halda fram hjá flokknum sínum og það er meira leyfi til að prófa aðra hluti.“ Hann nefnir sem dæmi persónufylgi Davíðs Oddssonar sem tryggði Sjálfstæðisflokknum 60 prósent atkvæða 1990. Stórsigur Jóns Gnarr 2010 og hve miklu stærri Samfylkingin er í Reykjavík en á landsvísu.
Kaus í Köben og tók kjörseðilinn með sér til Tórínó
Sjálfur þurfti Gísli að hafa fyrir sínu atkvæði. Íslenski Eurovision-hópurinn flaug til Tórínó aðfaranótt síðasta laugardags og í stað þess að senda föstudagsþátt Gísla, Vikuna, beint út eins og venjan er, var hann tekinn upp fyrr um daginn. Gísli hafði þá hugsað sér að fara í Holtagarða og kjósa eftir tökur á þættinum.
„Svo tók eftirvinnslan töluverðan tíma þannig að ég var að koma út úr útvarpshúsinu á slaginu átta og fattaði þá að Holtagarðar lokuðu klukkan átta. Þá voru góð ráð dýr og ég fór að gúggla ræðismanninn í Mílanó, en áttaði mig svo á að við vorum með þriggja tíma stopp á Kastrup á leiðinni hingað út. Þegar við lentum þar hljóp ég út og inn í leigubíl, og fór á honum í íslenska sendiráðið sem var með sérstaka opnun út af kosningunum. Þar lét ég leigubílinn bíða meðan ég fór inn og kaus. En ég þurfti að koma atkvæðinu mínu sjálfur til skila heim og þar sem ég vildi ekki missa af fluginu til Mílanó, tók ég atkvæðið með mér inn í leigubílinn, út á Kastrup og upp í vél. Þegar hingað til Tórínó var komið leitaði ég svo og fann DHL-hraðsendingarþjónustu og sendi atkvæðið þannig heim. Nú er ég búinn að fá ljósmynd til sönnunar á að því hafi verið veitt viðtaka.
Það er ansi vel í lagt?
„Já, ég geri hvað sem er fyrir góða Reykjavík.“
Góð staða fyrir fjölmiðlamann að enginn eigi mann
Það kom í ljós í borgarfulltrúatíð Gísla Marteins hve oft hann sigldi á móti straumnum í eigin flokki. Hann var borgarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn og mætti oft andstöðu meðal flokksfélaga sinna við þá stefnu sem hann tók í borgarmálum. Hann hefur heldur ekki farið leynt með dálæti sitt á stjórnmálafólki í öðrum flokkum.
„Það koma jafnmargar kvartanir undan því upp á RÚV hvað ég sé mikill Sjálfstæðismaður og undan því hvað ég sé vondur við Sjálfstæðisflokkinn,“ segir hann og segir það góða stöðu að vera í fyrir fjölmiðlamann, að enginn eigi mann. „Mér finnst það mjög góð staða að vera í að vita sjálfur ekkert endilega fyrir kosningar hvað ég ætla að kjósa en þurfa bara að taka afstöðu til málanna. En ég var ekki lengi að greiða atkvæði núna og er mjög ánægður með það sem ég kaus.“
„Ég var ekki lengi að greiða atkvæði núna og er mjög ánægður með það sem ég kaus.“
„Kosningakvöld eru heilög“
Gísli er ekki síður áhugamaður um kosningar og kosningasjónvarp en borgarmál og Eurovision.
„Kosningakvöld eru algerlega heilög kvöld. Þetta verður náttúrlega svo furðulegt kvöld núna. Kosningasjónvarpið byrjar klukkan tíu og þá klára Eurovision-aðdáendur með mér á RÚV 2. Ég fer svo lóðbeint yfir í kosningasjónvarpið til að fylgjast með því.“

Systurnar brilleruðu eins og Olsen-bræður
Systurnar komust upp úr sínum undanriðli í Eurovision á þriðjudag og taka þátt í úrslitakvöldinu í kvöld.
Gísli segir íslenska hópinn úti hafa verið undir allt búinn og að væntingarnar hafi verið í hófi. Hann hafi hins vegar fengið mjög góða tilfinningu þegar Systurnar fluttu sitt atriði í beinni. Atriðin á undan þeim hafi ekki verið að gera sitt besta.
„En svo koma okkar stelpur og gersamlega negla sinn performans. Höllin tók við sér í okkar lagi og ég bara ímyndaði mér og mér fannst ég bara finna einhvern veginn að Evrópa hefði svarað þessu lagi vel.“
Gísli Marteinn segist áður hafa séð svona augnablik í Eurovision og nefnir Olsen-bræður sem dæmi.
„Þeim hafði hvergi neins staðar verið spáð nálægt því að sigra. Svo bara gerist eitthvað í flutningnum, því þótt þetta sé risastór sjónvarpsþáttur þá eru þetta, þegar upp er staðið, bara listamenn á sviði að syngja í míkrófón og annað hvort tekst þeim vel upp eða ekki. Og stundum bara gerist eitthvað. Einhverjir töfrar.“
En hvað er Eurovision?
„Þú getur bæði tekið stóru myndina og sagt bara þetta er merkilegasti menningarviðburður í Evrópu en þú getur líka tekið minni myndina og sagt, þetta er sjónvarpsþáttur. Hvort tveggja er rétt. Í eðli sínu er þetta náttúrlega bara sjónvarpsþáttur sem byrjaði meira að segja bara sem útvarpsþáttur en hefur vaxið yfir í eitthvað annað. Núna endurspeglast í hverri keppni, á hverju einasta ári, eitthvað sem er að gerast í álfunni. Armenía og Aserbaísjan gefa hvort öðru aldrei stig, áhugafólk um Eurovision veit mjög vel um deilurnar milli þessara tveggja landa og betur en flestir Evrópubúar.Aðdáendur Eurovision vita vel hvar stór hluti Albana býr því það sést á því hvernig er kosið.“
Gísli nefnir líka mikla pólitík í kringum Írland og Norður-Írland. „Írar senda mjög oft Norður-Íra í Eurovision, sem eru náttúrlega bara Bretar sem eru líka að keppa.
Þannig að það er hægt að fara mjög djúpt í pólitíkina í Eurovision. Mér finnst það skemmtilegt. Ekkert endilega bara fyrir lýsinguna heldur fyrir mig sjálfan að læra meira um álfuna í gegnum þennan skemmtilega kíki.“
Þegar Macron reyndi að beita sér fyrir frönskum sigri
Gísli segir áhugann á Eurovision um alla Evrópu mun meiri en Íslendingar kannski haldi.
„Okkur Íslendingum finnst gaman að segja að við séum þau einu sem horfum á Eurovision en það er auðvitað bara alls ekki rétt. Úrslitakvöldið er á aðalrásinni hjá öllum Evrópuþjóðum.“ Gísli vísar í nýlega umfjöllun BBC máli sínu til stuðnings.
„Þar er meðal annars sögð saga af því að franski lýsandinn, sem er búinn að vera í þessu djobbi mjög lengi, fékk símtal frá Macron forseta sem sagði: „Heyrðu, ítalski gæinn var að taka kókaín, Frakkland á að vinna þetta, geturðu ekki gert eitthvað?“
„Heyrðu, ítalski gæinn var að taka kókaín, Frakkland á að vinna þetta, geturðu ekki gert eitthvað?“
Svona símtal fékk sem sagt kollegi minn og þetta er dæmi um hvað fólk hefur mikinn áhuga á þessu.“
Sjálfur er Gísli Marteinn að farast úr spenningi fyrir bæði Eurovision og kosningunum. „Þetta verður stórkostlegur dagur því þegar allt kemur til alls snýst þetta hvort tvegga um að gera samfélagið betra.“