Ketill Ágústsson, 15 ára knattspyrnumaður og trúbador sem tekst á við nýtt hlutverk í leiksýningunni Níu líf í haust, spilar og syngur nær allan katalóg Bubba núorðið. „Ég byrjaði að hlusta á þig fyrir tveimur árum,“ segir Ketill við Bubba og bætir við: „Og síðan hef ég bara verið að hlusta á hann alla daga og allar nætur,“ en Ketill er einnig lagasmiður.

Bubbi segir um fyrstu kynni sín af Katli: „Hann var framhleypinn en það var kjöt á beinunum og þá er ég alveg tilbúinn,“ segir hann, um að leiðbeina Katli í tónlistinni í framtíðinni.

Ketill og fyrirmyndin Bubbi hittust á Fréttavaktinni á Hringbraut í gærkvöldi, þar sem Ketill plokkaði gítarinn og söng og Bubbi tók undir með fulltrúa nýrrar kynslóðar sem nýtur tónlistar Bubba. „Ég er sem sagt Alþýðu-Bubbi,“ segir Ketill um hlutverk sitt í sýningunni Níu líf, þar sem hann mun spila Stál og hnífur. „Og ég er ógeðslega spenntur.“