„Þetta byrjaði þegar ég var læstur inni í Covid í Danmörku og þá þurfti maður að hreyfa sig eitthvað og hafa eitthvað til að gera,“ segir Hallgrímur Þorsteinsson sem hljóp þúsundasta daginn í röð á mánudag með því að hlaupa í þúsund mínútur með vinum og vandamönnum.

Hann segir að hreyfingin hafi hjálpað sér í gegnum Covid-faraldurinn. „Að hafa eitthvað til að gera á hverjum degi var mjög gott og hjálpaði mér að halda fókus. Svo hélt þetta bara áfram.“

Hallgrímur slapp ekki við veiruna skæðu. Hann smitaðist af Covid þegar hann kom til Íslands en hélt engu að síður áfram að fara út og hreyfa sig. „Það var ekki hægt að hætta en það var ekki langt sem ég fór þegar ég var með Covid. Bara stundum kílómetra eða eitthvað álíka í Fossvogsdal, nánast skríðandi um.

Ég veit ekki hversu sniðugt það var en þetta hjálpaði mér. Maður verður svolítið háður þegar maður setur svona í gang,“ segir hann.

Áður en hann vissi af voru dagarnir orðnir 100, svo 200, svo 500 og þúsundasti dagurinn rann upp á mánudaginn. „Ég eiginlega áttaði mig ekki á því að dagarnir væru orðnir svona margir og hugsaði að það gæti verið gaman að gera eitthvað í tilefni dagsins. Hugsaði að það væri gaman að gera eitthvað sem tengist tölum.

Að hlaupa þúsund metra var svolítið lítið en þúsund kílómetrar er of mikið og eiginlega vonlaust. Þannig að mér datt í hug þúsund mínútur sem eru 16 klukkutímar og það er svolítið mikið fyrir einn einstakling. Þá ákvað ég að búa til lítinn viðburð og allir gætu talið saman sínar mínútur og hlaupið með þar til þúsund mínútur væru búnar.

Litlu bræður mínir hlupu með og mættu með vini sína sem hlupu smá og svo kom mamma með hlaupa­hóp og þau hlupu með.“

Sjálfur hljóp hann um 60 kílómetra og kláraði með hópnum sem hljóp með honum síðasta spölinn. Svo skellti hann sér í pottinn um kvöldið til að njóta. „Þetta var ekki styrktarhlaup. Mig langaði bara að hóa fólki saman og hlaupa. Gera eitthvað skemmtilegt og fá okkur góðan kaffibolla á eftir.“

Hann er aðeins aumur í kálfunum eftir kílómetrana 60 en segir að tilfinningin sé góð að hafa klárað dagana þúsund. „Stundum var þetta kílómetri, stundum 15 og stundum lengra. Það var gaman að halda þessu markmiði uppi og ná að klára,“ segir Hallgrímur.