Fjöl­skyldan Fannar Guð­munds­son, Anna Gréta Oddds­dóttir og Theo­dór Máni náðu í dag þriggja milljón króna markinu í á­heita­söfnun sinni fyrir Barna­spítala hringsins á sann­kölluðum há­tíðis­degi: Árs­af­mæli Theo­dórs Mána.

Fjöl­skyldan hefur verið opin­ská með veikindi Theo­dórs Mána, sem fæddist með afar sjald­gæfan erfða­sjúk­dóm og er ekki hugað langt líf. Fannar ræddi söfnunina og að­stæður fjöl­skyldunnar í Sunnu­dags­blaði Moggans í júlí.

Til­efnið var á­heita­söfnun fyrir Barna­spítala Hringsins en Fannar hugðist hlaupa heilt mara­þon í Reykja­víkur­mara­þoninu í ágúst. Það var blásið af en þess í stað hljóp Fannar mara­þonið í dag, á af­mælis­degi Theo­dórs Mána. Sagði hann á sam­fé­lags­miðlum að mark­miðið væri að komast yfir þrjár milljónir í söfnuninni og hefur það nú tekist. Fannar hljóp maraþonið á 3:04.

Gríðar­lega þakk­lát

„Það er bara al­gjör­lega ó­metan­legt að geta gefið til baka eftir alla að­stoðina sem maður hefur fengið,“ segir Anna Gréta á ein­lægu nótunum í sam­tali við Frétta­blaðið.

„Maður upp­lifir sig nógu oft ó­sjálf­bjarga og van­máttugan en allt í einu fær maður tæki­færi til þess að gera eitt­hvað,“ segir hún þakk­lát vegna þriggja milljón króna marksins sem náðist í dag.

„Við vorum bara orð­laus. Maður veit ekki hvað maður hefur gert til þess að eiga þetta allt skilið. Það er ó­trú­lega skrítið að vera í þeim að­stæðum sem við erum í og upp­lifa sig heppin. En það er náttúru­lega bara af því að maður á svo marga góða að.“

Theodór Máni á ársafmæli í dag.
Mynd/Reykjavíkurmaraþonið

Sjón­deildar­hringurinn stuttur

Fannar út­skýrði í við­tali við Moggann að vegna veikinda Theó­dórs væri sjón­deildar­hringur fjöl­skyldunnar stuttur, bara tveir dagar. „Það er eng­in leið að spá fyr­ir um fram­haldið. Við þá ó­vissu búum við alla daga.“

Theo­dór Máni þarf stöðuga um­önnun og er tengdur við næringu í 21 klukku­stund á sólar­hring og hafa þau Fannar og Anna þrjá tíma á dag til að fara með hann út úr húsi.

Lýsti Fannar því í Mogganum að þau væru ó­endan­lega þakk­lát fyrir að­stoðina en fjöl­skyldan fær heim­­sókn frá heima­hjúkr­un á hverj­um degi og vin­­kona Önnu Grétu leys­ir þau af í fjór­tán næt­ur í mánuði, úr­ræði sem kostað er af borg­inni. Einnig kem­ur hjúkr­un­ar­­fræði­nemi í sex næt­ur á mánuði.

For­eldrarnir eru einkar þakk­látir fyrir að hafa haft tæki­færi til að hafa Theo­dór Mána svo mikið heima. „Það er eng­in leið fyr­ir tvær mann­eskj­ur að fylgj­ast með veiku barni all­an sól­ar­hring­inn, þannig að við gerðum okk­ur snemma grein fyr­ir því að við þyrft­um að­stoð. Þessi úr­ræði hafa virkað vel og við erum ó­end­an­­lega þakk­lát fyr­ir alla hjálp­ina,“ sagði Fannar við Moggann. „Án henn­ar vær­um við á­byggi­­lega bæði búin að missa vitið og gæðin í tím­an­um sem við höf­um með syni okk­ar væru miklu minni.“

Enn er hægt að heita á Fannar á heimasíðu Reykjavíkurmaraþonsins.

Fjölskyldan er gríðarlega þakklát fyrir stuðninginn.
Mynd/Reykjavíkurmaraþonið