Fjölskyldan Fannar Guðmundsson, Anna Gréta Odddsdóttir og Theodór Máni náðu í dag þriggja milljón króna markinu í áheitasöfnun sinni fyrir Barnaspítala hringsins á sannkölluðum hátíðisdegi: Ársafmæli Theodórs Mána.
Fjölskyldan hefur verið opinská með veikindi Theodórs Mána, sem fæddist með afar sjaldgæfan erfðasjúkdóm og er ekki hugað langt líf. Fannar ræddi söfnunina og aðstæður fjölskyldunnar í Sunnudagsblaði Moggans í júlí.
Tilefnið var áheitasöfnun fyrir Barnaspítala Hringsins en Fannar hugðist hlaupa heilt maraþon í Reykjavíkurmaraþoninu í ágúst. Það var blásið af en þess í stað hljóp Fannar maraþonið í dag, á afmælisdegi Theodórs Mána. Sagði hann á samfélagsmiðlum að markmiðið væri að komast yfir þrjár milljónir í söfnuninni og hefur það nú tekist. Fannar hljóp maraþonið á 3:04.
Gríðarlega þakklát
„Það er bara algjörlega ómetanlegt að geta gefið til baka eftir alla aðstoðina sem maður hefur fengið,“ segir Anna Gréta á einlægu nótunum í samtali við Fréttablaðið.
„Maður upplifir sig nógu oft ósjálfbjarga og vanmáttugan en allt í einu fær maður tækifæri til þess að gera eitthvað,“ segir hún þakklát vegna þriggja milljón króna marksins sem náðist í dag.
„Við vorum bara orðlaus. Maður veit ekki hvað maður hefur gert til þess að eiga þetta allt skilið. Það er ótrúlega skrítið að vera í þeim aðstæðum sem við erum í og upplifa sig heppin. En það er náttúrulega bara af því að maður á svo marga góða að.“

Sjóndeildarhringurinn stuttur
Fannar útskýrði í viðtali við Moggann að vegna veikinda Theódórs væri sjóndeildarhringur fjölskyldunnar stuttur, bara tveir dagar. „Það er engin leið að spá fyrir um framhaldið. Við þá óvissu búum við alla daga.“
Theodór Máni þarf stöðuga umönnun og er tengdur við næringu í 21 klukkustund á sólarhring og hafa þau Fannar og Anna þrjá tíma á dag til að fara með hann út úr húsi.
Lýsti Fannar því í Mogganum að þau væru óendanlega þakklát fyrir aðstoðina en fjölskyldan fær heimsókn frá heimahjúkrun á hverjum degi og vinkona Önnu Grétu leysir þau af í fjórtán nætur í mánuði, úrræði sem kostað er af borginni. Einnig kemur hjúkrunarfræðinemi í sex nætur á mánuði.
Foreldrarnir eru einkar þakklátir fyrir að hafa haft tækifæri til að hafa Theodór Mána svo mikið heima. „Það er engin leið fyrir tvær manneskjur að fylgjast með veiku barni allan sólarhringinn, þannig að við gerðum okkur snemma grein fyrir því að við þyrftum aðstoð. Þessi úrræði hafa virkað vel og við erum óendanlega þakklát fyrir alla hjálpina,“ sagði Fannar við Moggann. „Án hennar værum við ábyggilega bæði búin að missa vitið og gæðin í tímanum sem við höfum með syni okkar væru miklu minni.“
Enn er hægt að heita á Fannar á heimasíðu Reykjavíkurmaraþonsins.
