Hljóðupptaka Báru Halldórsdóttur á samræðum þingmanna á veitingastaðnum Klaustri hinn 20. nóvember í fyrra fór í bága við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og reglugerð Evrópusambandsins. Viljinn greindi frá þessu í dag.

Úrskurðurinn er kominn og verður ekki birtur fyrr en á morgun. Þetta staðfestir Halldór Auðar Svansson, talsmaður Báru Halldórsdóttur í samtali við Fréttablaðið.

Þarf að eyða upptökunum

Þá þarf Bára að eyða upptökunum og senda Persónuvernd staðfestingu á að svo hafi verið gert eigi síðar en 5. júní næstkomandi.

Viljinn greinir frá því að Persónuvernd telji ekki tilefni til þess að beita sekt í málinu, en undirstrikar að hljóðupptökunum skuli vera eytt og það staðfest í kjölfarið.

Úrskurðurinn.

Höfnuðu beiðni um greiðslupplýsingar

Persónuvernd hafnaði kröfu lögmanna Miðflokksins um gagnöflun um greiðslur inn á reikning Báru. Lögmaður Miðflokksmanna taldi sig hafa óræka sönnun fyrir því að Bára hafi undirbúið aðgerð sína vel og að allt benti til þess að um samverknað væri að ræða. Bára afhenti Fréttablaðinu afrit af reikningsyfirliti sínu og sagðist ekki hafa neitt að fela.

„Alveg jafn óviðeigandi það sem þau sögðu“

Blaðamaður Fréttablaðsins mætti í heimsókn til Báru 30. mars síðastliðinn til að ræða ásakanir Miðflokksmannanna að upptökur Báru hafi verið hluti af samsæri til að knésetja Miðflokkinn.

„Það skiptir mig ekkert máli hvar í stjórnmálum þessir menn og kona eru. Þau mættu vera úr hvaða flokki sem er. Það væri alveg jafn óviðeigandi það sem þau sögðu,“ sagði Bára í samtali við Fréttablaðið.

Fréttin verður uppfærð þegar frekari upplýsingar berast.