Steypustöðin kynnti á dögunum fyrsta rafknúna steypubílinn og tvinndælu á Íslandi.
Í tilkynningu frá Steypustöðinni segir að fyrirtækið hafi gengið frá samningi við stærsta steypudælu- og bílaframleiðanda heim, Putzmeister, um fyrsta rafmagnsknúna steypubílinn. Þá er bifreiðin einnig fyrst sinnar tegundar frá framleiðandanum á heimsvísu.
Um er að ræða rafmagnsbíl sem er 100 prósent rafknúinn mengar því ekki við akstur eða losun steypunnar á verkstað segir í tilkynningu frá Steypustöðinni
„Það er ótrúlega gaman að ganga frá þessum samningi. það er mikill heiður að Ísland fái fyrsta rafmagnsknúna steypubílinn frá Putzmeister og það er ákveðinn viðurkenning fyrir íslenska steypumarkaðinn að fá þetta traust og ryðja þannig brautina í heiminum fyrir umhverfisvæna steypuflutninga,“ segir Björn Ingi Victorsson, forstjóri Steypustöðvarinnar.
Þá segir einnig að fyrirtækið hafi fest kaup á Hybrid steypudælu sem mun dæla steypu á byggingasvæðum með afar lágri kolefnislosun.
Hljóðmengun úr sögunni
Í tilkynningunni kemur einnig fram að hljóðmengun frá dísilknúnum vélum í framkvæmdum er oft á tíðum mikil truflun fyrir íbúa á staðnum en að rafmagnssteypubílinn sé afar hljóðlátur og veldur lítilli hljóðmengun.
„Hljóðmengun er mikið vandamál þegar verið er að steypa í dag með tilkomu þéttingu byggðar. Vélin í þessum rafmagnssteypubíl er einstaklega hljóðlát og nágrannar á svæðinu geta svo sannarlega sofið út þó að verið sé að steypa“ segir Björn.