Dularfullt lágtíðnihljóð hefur plagað Akureyringa undanfarna daga og velta margir fyrir sér hvað sé til ráða.

Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson, tónlistarstjóri Menningarfélags Akureyrar, vakti athygli á hljóðinu á sunnudag sem virðist einkum heyrast í nálægð við miðbæinn. Í kjölfarið stigu margir íbúar fram sem könnuðust við ófögnuðinn og kölluðu eftir aðgerðum.

Hefur truflað svefn

Margir hafa lýst hljóðinu sem viðvarandi són sem geti verið mjög truflandi. Dæmi eru um að hljóðið trufli svefn fólks en tónlistarmaðurinn Kristján Edelstein sagði í kvöldfréttum RÚV í gær að hann hafi verið svefnvana í tvær nætur vegna þessa.

Fréttamanni RÚV tókst ekki að ná hljóðinu á upptöku þrátt fyrir að hafa heyrt það vel við Akureyrarkirkju.

Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra er með málið til skoðunar. Þorvaldur náði loks hljóðinu með sérstaklega næmum hljóðnema og birti upptöku á Facebook-síðu sinni í gær.

Komi úr mygluhorninu eða frá geimverum

Hann segir klippu úr Ávaxtakörfunni fylgja þar sem erfitt sé að setja inn hljóðskrá á Facebook án þess að myndband fylgi með.

„Þetta hljóð kæmi þá væntanlega frá mygluhorninu alræmda ef þetta væri í körfunni góðu!“

Uppspretta hljóðsins er mikil ráðgáta og eru ýmsar tilgátur á lofti. Þeirra á meðal er að það komi frá rafstöð, loftræstingu, dælustöð eða vél í verksmiðju.

Þorvaldur segir það til mikils að vinna að uppræta þennan ófögnuð sem hann hefur jafnvel kennt við drauga og geimverur.

„Við hjónin höfum haft gesti hérna sem sem einfaldlega voru fegnir að komast eitthvert annað, þar sem er svefnfriður. Þetta er heilsufarsmál og það verður leiðin sem farin verður til að kveða niður drauginn.“