Skaðabótamáli Hljóðbókar.is gegn Hljóðbókasafninu var vísað frá í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Krafan var vegna útgáfu safnsins á verkum frá árunum 2013 til 2017 en dómari vísaði málinu frá vegna vanreifunar.

Eggert Bjarni Ólafsson, lögmaður Hljóðbókar.is, segir of snemmt að segja til um hvað fyrirtækið hyggist gera næst. Hvort málinu verði áfrýjað til Landsréttar eða höfðað á nýjan leik. Nú sé hins vegar búið að rjúfa fyrninguna á umræddum útgáfum.

Bókaútgáfur hafa lengi kvartað undan mikilli útgáfu Hljóðbókasafnsins, sérstaklega á nýjum útgáfum, og bent á að umfang sambærilegra safna í nágrannalöndum sé langtum minna en hér. Samkvæmt íslenska kerfinu fá höfundarnir 32 þúsund króna eingreiðslu fyrir upplesið verk hjá safninu en útgáfurnar ekkert.