Stjörnvöld í Eistlandi hafa ákveðið að hætta að hleypa rússneskum ríkisborgurum inn í landið. Eins og Fréttablaðið greindi frá í gær hafa Úkraínumenn og Finnar kallað eftir að Evrópuríki hamli ferðum Rússa.

„Möguleiki Rússa til að heimsækja Eistland eða önnur lönd í gegnum Eistland stangast á við gildin til grundvallar þeim þvingunum sem við höfum sett á,“ sagði Urmas Reinsalu utanríkisráðherra í yfirlýsingu, en í ljósi flug- og hafnbanns hafa rússneskir ferðamenn notað Eistland og fleiri staði til að komast inn á Schengen-svæðið.

Eistnesk stjórnvöld munu veita vissar undanþágur. Til að mynda munu þau hleypa Rússum sem hafa fengið vegabréfsáritanir annars staðar inn í landið. Þá munu vöruflutningamenn og Rússar sem eiga fjölskyldu í Eistlandi fá að keyra á milli. Rússneskir námsmenn í Eistlandi munu einnig fá að klára gráður sínar.