Miðflokksmenn hafa lokið máli sínu um samgönguáætlun á Alþingi eftir fjögurra daga málþóf. Hlé hefur verið gert á fundarhöldum.

„Það er þannig að við þingmenn verðum að sýna ábyrgð í meðferð opinberra fjármuna. Því miður virðist þá oft sérstaklega kristallast í þessu máli að það eru fáir vinir skattgreiðenda hér inni.“ sagði Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, í lokaræðu sinni um málið í dag.

Til stendur að þingi ljúki næstkomandi fimmtudag en líkur á að það standist fara æ minnkandi.

Þingstörf hafa lítið þokast en þingmenn Miðflokksins hafa rætt samgönguáætlun síðan á fimmtudag í síðustu viku vegna andstöðu sinnar við Borgarlínu. Formaður þingflokksins, Gunnar Bragi Sveinsson, flutti sína 24. ræðu um málið fyrir tómum þingsal um miðjan dag í gær.

Sex þingmenn Miðflokksins eru á mælandaskrá fyrir næsta mál um heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu. Málið snýst einnig um Borgarlínuna.