Lögreglan í Ástralíu er byrjuð að grafa við hús sem kona sem hvarf sporlaust árið 1982 bjó í. Svo virðist sem rannsóknin hafi verið tekin upp að nýju eftir að málið var tekið fyrir í vinsælu hlaðvarpi.

Tveggja barna móðirin Lynette Dawson hvarf sporlaust fyrir 36 árum. Chris Dawson, þáverandi eiginmaður Lynette, sagði að hún hefði ef til vill yfirgefið fjölskylduna til að ganga í sértrúarsöfnuð. Hann neitaði ásökunum þess efnis að hann hafi myrt eiginkonu sína.

Fram kemur í frétt BBC af málinu að tvær aðskildar rannsóknir réttarmeinafræðinga hafi beint sjónum að „tilteknum aðila“. Enginn hefur þó verið dæmdur fyrir hvarfið.

Hlaðvarpið The Teacher‘s Pet, eða Kennarasleikjan hefur notið mikilla vinsælda að undanförnu og beint sjónum að málinu á nýjan leik. Lögreglan hefur nú tilkynnt að tæknideild hafi hafið fimm daga rannsókn á málinu, þar sem leitað er að líkamsleifum Lynnette. „Þetta snýst allt um réttlæti fyrir Lyn,“ hefur BBC eftir Scott Cook, lögreglustjóra í New South Wales. Hann sagði að Chris yrði kærður fyrir hvarfið á eiginkonu sinni, sama hvað kæmi út úr þeirri leit.

Sérstakur starfshópur innan lögreglunnar var settur á fót árið 2015. Honum var falið að taka upp málið á nýjan leik. Í apríl skilaði hópurinn nýjum sönnunargögnum til saksóknara til að meta hvort leggja ætti fram kæru. Saksóknarar hafa áður sagt að sönnunargögn skorti til að leggja fram slíka kæru.

Í réttarrannsókn sem gerð var árið 2003 kom fram að Chris, sem er fyrrverandi ruðningshetja og kennari við gagnfræðaskóla, hafi átt í kynferðislegum samböndum við nemendur sína. Fáeinum dögum eftir að Lynette hvarf flutti ein þeirra, 16 ára nemandi, inn til hans. Parið gifti sig en leiðir þeirra hafa síðar skilið.

BBC segir að bílar búnir gervihnattabúnaði séu staðsettir við húsið þar sem hjónin bjuggu á sínum tíma. Um sé að ræða dýrt hverfi með stórum og miklum húsum í Bayview, nánar tiltekið við götuna Gilwinga Dirive. Grafið hafi verið í garðinum áður. En leitarmenn vonist nú eftir að finna svörin við ráðgátunni sem leitað hafi á íbúa í Sidney í tæplega 40 ár.

„Það sem er frábrugðið við þessa leit er að hún er miklu ítarlegri. Við munum grafa alla leið niður á klöpp.“ Á meðal þess sem fannst í fyrri greftri voru leifar af peysu sem var lengi í uppáhaldi Lynette. Hún hafði verið skorin í sundur með hnífi.

Hlaðvarpið, sem 12 milljónir manna hafa sótt, beinir sjónum sínum að slælegum vinnubrögðum lögreglumanna við rannsókn málsins á sínum tíma. Lögregluembættið baðst nýlega afsökunar á þeim.