Alþjóðlegu mannúðarsamtökin Amnesty International hafa fordæmt írönsk stjórnvöld fyrir að hafa dæmt mann, sem drakk áfengi þegar hann var 14 eða 15 ára, til að þola 80 svipuhögg. BBC greinir frá.
Saksóknarar segja að hann hafi verið handtekinn fyrir neyslu áfengis annað hvort árið 2006 eða 2007. Maðurinn þurfti að taka út refsingu sína í borginni Kashmar á dögunum, nú kominn á þrítugsaldur. Ekki liggur fyrir hvers vegna hann var látinn taka út refsinguna ellefu eða tólf árum seinna.
Fulltrúar Amnesty eiga vart orð yfir refsingunni sem maðurinn hlaut. Philip Luther, fulltrúi samtakanna í Mið-Austurlöndum og N-Afríku, segir að enginn, óháð aldri, eigi að þola refsingu af þessu tagi. Þá sé þetta tiltekna mál sérstaklega óhugnanlegt en á myndum, sem réttast er að vara við, má sjá manninn bundinn við tré á meðan hann þarf að þola föst högg svipunnar.
Refsilöggjöf Írana kveður á um að ef múslimi neytir áfengis sé réttlætanlegt að dæma hann til 80 svipuhögga. Auk þess eru svipuhögg viðurlög við fjölda annars konar brota.
„Það er hreint út sagt ólíðandi að írönsk stjórnvöld haldi áfram að deila út slíkum refsingum og réttlæti það í nafni trúarinnar,“ segir Luther enn fremur.
Athugasemdir