„Kosturinn við að hlaupa 100 kílómetra er að það spyr þig enginn um tímann. Það er meira að ná að klára,“ segir Andrea Kjartansdóttir, sem er eina konan skráð í 100 kílómetra Goshlaup um helgina.

America to Europe – Reykjanes Volcano Ultra fer fram um helgina, en í 100 kílómetra hlaupinu verður hlaupið fram hjá eldgosinu sem og milli heimsálfa, því farið verður yfir gjána milli Ameríku og Evrópu. Bjarni Már Svavarsson segir að fyrirspurnum erlendis frá rigni inn fyrir næsta ár. Eðlilega eru fáir erlendir að fara hlaupa þetta árið, en Bjarni vonast til að næsta ár verði ansi stórt.

„Það eru einhverjir útlendingar að fara hlaupa í ár, en það er mikið af fyrirspurnum fyrir næsta ár. Grindavík verður upphafs- -og endapunktur. Gosið breytti svo leiðinni aðeins, en við höfum unnið okkur í gegnum það,“ segir hann.

Leiðirnar eru ákaflega skemmtilegar en hlaupið verður á utanvegastígum, fjallvegum, um strandir, hraun, bæi Suðurnesja og upp að útsýnisstöðum, en þó er ákaflega lítil hækkun. Í 10 kílómetra hlaupinu er 116 metra hækkun og í 100 kílómetrunum er 820 metra hækkun.

„Það eru auðvitað engin stór fjöll á Reykjanesinu. Þetta eru rúllandi upphækkanir en í 50 og 100 kílómetrunum er hlaupið milli heimsálfa, því hlaupið er yfir brúna milli Ameríkuflekans og Evrópuflekans,“ segir Bjarni.

Andrea bíður spennt eftir helginni enda góð spá og segist hlakka til að hlaupa fram hjá eldgosinu. „Ég hef hlaupið 100 kílómetra áður, en það var í aðeins öðru formi. Nú langar mig að klára 100 kílómetra í alvöru hlaupi með engum hléum.

Það getur verið bæði gott og vont að hafa meiri hækkun, því þá er hægt að hvíla sig upp brekkurnar, þannig að ég er aðeins stressuð ef það eru ekki brekkur. Öll hækkunin er á fyrri hlutanum og seinni hlutinn er á meira flatlendi.

Þetta lítur út fyrir að vera skemmtilegt hlaup og góð braut. Betri hlauparar en ég gætu neglt á þetta og náð góðum tíma. En ég er ekki á þeim stað. Ég ætla bara að klára þetta,“ segir hún.