„Kæmi til stærra hlaups gæti skapast hætta í Húsafellsskógi og er því æskilegt að gert verði hættumat fyrir sumarbústaða­byggðina,“ segir í skýrslu Veðurstofu Íslands og fleiri stofnana vegna mikils jökulhlaups úr Hafrafellslóni við Langjökul í fyrrasumar.

Jökulhlaupið sem varð úr Hafrafellslóni 18. og 19. ágúst í fyrra fór í Svartá og síðan í farveg Hvítár og með henni niður eftir Borgarfirði.

„Hlaupvatn fyllti farveg árinnar undir Hvítárbrú hjá Húsafellsskógi en neðst í Hvítársíðu hækkaði vatnsborð um einn metra og eðja barst sums staðar upp á engjar,“ segir í skýrslunni. Dauðir laxar bárust upp á engjar neðan Hraunfossa.

Haft er eftir Húsfellingum að þetta sé mesta flóð sem vitað sé um undir brúna við Kaldadalsveg. Talið sé að hlaupvatnið hafi verið 3,4 milljónir rúmmetra. Borist hafi fram verulegt magn af hlaupseti sem búast megi við að verði uppspretta rykmisturs og móðu um nokkurn tíma.

Meðalhraði á stóra jökulhlaupinu úr Hafrafellslóni er talinn hafa verið 2 til 3 metrar á sekúndu
mynd/fréttablaðið

Hafrafellslón hefur verið að myndast frá síðustu aldamótum vegna hörfunar jökulsins að því er segir í skýrslunni. „Hætta er á fleiri hlaupum úr lóninu á komandi árum og er lagt til að lónið verði vaktað að sumarlagi með athugun tunglmynda. Einnig er æskilegt að setja upp vefmyndavél og ef til vill vatnshæðarmæli við lónið þegar hlaup er talið nálgast,“ leggja sérfræðingarnir til.

Hraði hlaupsins í fyrra er áætlaður þrír til fjórir metrar á sekúndu að jafnaði frá jökli niður að Hvítárbrú við Kaldadalsveg.

„Ljóst er að ekki mátti miklu muna að hætta skapaðist við Kaldadalsveg og norðarlega í Húsafellsskógi við hlaupið,“ segir í skýrslunni.

„Niðurstöður benda til að um 2,5 klukkustundir gæfust til umráða til að vara íbúa og ferðafólk á Húsafellssvæðinu við, ef búnaður væri til staðar við lónið sem sendi viðvörun um leið og vatnsborð þar tæki að lækka,“ segja skýrsluhöfundar.

Sagt er að full ástæða virðist vera til frekari vöktunar með fjarkönnun, vatnshæðarmælingum og vefmyndavélum. Miðað við hlaupið í fyrra sé aðallega hætta á eignatjóni fremur en slysum á fólki.

„Þó er rétt að upplýsa fólk á svæðinu um hættu á áframhaldandi jökulhlaupum úr lóninu og að næsta hlaup kunni að geta orðið stærra en hlaupið sem hér er fjallað um,“ segja sérfræðingarnir. „Umsjónarmenn á Húsafellssvæðinu og ferðafyrirtæki sem þar starfa þurfa að vita af hlauphættunni og tryggja þarf að upplýsingar geti borist skjótt milli þessara aðila og náttúruvaktar Veðurstofunnar.“

Bent er á það í skýrslunni að Langjökull hafi hopað stöðugt á síðustu 25 árum. Líklegt sé að lægðin við Hafrafell sem lónið fyllti síðla sumars 2020 stækki til suðurs við frekara hop jökulsins.