Hlaup er nú hafið í Eystri-Skafárkatli en greint er frá málinu á vef Veðurstofunnar. Kemur þar fram að GPS-mælingar bendi til þess íshellan sé farin að lækka og rennsli úr lóninu sé því hafið. Náttúruvárvakt Veðurstofunnar fylgist nú vel með þróuninni.

„Búast má við að í heildina lækki íshellan um 60-100m. Þetta hlaup kemur í kjölfar hlaups úr vestari katlinum sem nú er í rénun,“ segir í tilkynningu um málið en íshellan byrjaði að lækka klukkan 23 í gærkvöldi og hefur á þeim tíma lækkað um tæplega einn metra.

Ef miðað er við framgang hlaupsins árið 2018 má búast við að núverandi hlaup sjáist á vatnshæðarmæli við Sveinstind á morgun en frá þeim stað tekur það hlaupvatnið tæplega tíu klukkustundir til viðbótar að ná vatnshæðarmæli í Elvatni við Ása nærri Hringveginum.

„Ef fram fer sem horfir mun hlaupvatn því ná að þjóðveginum annað kvöld,“ segir í tilkynningunni.

Hættustigi lýst yfir

Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Suðurlandi hefur lýst yfir hættustigi almannavarna vegna hlaupsins. Búast má við einhverjum samgöngutruflunum á fjallvegum næssti skaftá og eru vegfarendur því beðnir um að fylgjast vel með upplýsingum um færð á vegum.

Þá getur brennisteinsvetnismengun verið á svæðinu þar sem hlaupvatn kemur undan jökli sem gæti skaðað slímhúð í öndunarfærum og augum.

Síðast hljóp úr Eystri-Skaftárkatli í ágúst 2018 en búast má við að þetta hlaup verði ámótastórt en gæti dreift meira úr sér. Hámarksrennsli hlaupsins árið 2018 var um tvö þúsund rúmmetrar á sekúndu sem er fjórfalt hámarkrennsli í hlaupinu í vestari katlinum sem stendur nú yfir.

„Hlaupið núna úr vestari katlinum hefur hækkað grunnvatnsstöðu og getur því hlaupvatnið úr eystri katlinum dreift sér meira um flóðasvæðið en 2018. Við þetta bætist að talsverð úrkoma hefur einnig verið á svæðinu undanfarinn sólarhring,“ segir í tilkynningu Veðurstofunnar.

Fréttin hefur verið uppfærð.