Veðurstofa Íslands segir mælingar benda til þess að styttist í eldgos í Grímsvötnum. Íshella Grímsvatna heldur áfram að hækka samkvæmt GPS gögnum en gögn benda ekki til þess að hlaup sé hafið.

Vatnsstaða er þó há og má búast við hlaupi á árinu og hefur því eftirlit með Grímsvötnum verið aukið. Sviðsmyndir Vísindaráðs Almannavarna frá því í sumar eru enn í gildi og var fundi ráðsins frestað í morgun.

Eðlilegt miðað við árstíma

Líkt og Fréttablaðið greindi frá í gær hafa mælingar nýrra GPS-mæla gefið til kynna að jökul­hlaup sé að hefjast í Gríms­vötnum. Óvissa ríkti um upplýsingarnar og var talið mögulegt að um skekkju væri að ræða í mælingunum.

Eftir að Vísindaráð kom saman í gær sýndu GPS gögn að hellan hafði hætt að rísa sem gæti verið merki um að hlaup sé hafið. Hellan hóf þó að rísa að nýju seint í gærkvöldi en að sögn Veðurstofunnar er það eðlilegt miðað við árstíma.

Eftirlitsflug með þyrlu Landhelgisgæslunnar

Mælingar við Gígjukvísl sýnir að rafleiðni og vatnshæð er eðlileg miðað við árstíma. Jarðskjálftamælar sýna engan hlaupóróa.

Sérfræðingar Veðurstofunnar gera ráð fyrir að fara í eftirlitsflug á morgun, sunnudaginn 16. ágúst, með þyrlu Landhelgisgæslunnar.

Mælitæki á staðnum verða könnuð og verða gerðar gasmælingar.

Sérfræðingar Veðurstofunnar ætla í eftirlitsflug á morgun með þyrlu Landhelgisgæslunnar.