„Auðvitað má líta á þetta sem svona áframhald metoo hreyfingarinnar,“ sagði Gyða Margrét Pétursdóttir doktor í kynjafræði á Fréttavaktinni í kvöld þar sem hún ræddi mál Flokks fólksins fyrir norðan sem fjallað hefur ítarlega verið um síðustu daga.

„Þolendur stigu fram í gær og sýndu að það er ekki lengur hægt að þagga niður í þolendum og skömmin er ekki þeirra,“ sagði Gyða Margrét og að samstaðan sem þær sýndu hvorri annarri sé einnig eitthvað sem megi rekja til Metoo hreyfingarinnar.

Gyða Margrét sagði áhugavert að beina einnig sjónum að því hvaðan málið er sprottið og afdráttarlaus afstaða Guðmundar Inga Kristinssonar, varaformanns flokksins, í upphafi máls.

„Inga Sæland fylgdi síðan í kjölfarið,“ sagði Gyða og sagði að málið benti mögulega til breyttrar afstöðu innan flokksins og rifjaði upp meint vændiskaup þingmanns flokksins sem fjallað var um fyrr á árinu.

Hún sagði afdráttarlausa afstöðu þeirra sem sakaðir hafa verið um ofbeldi í þessu máli áhugaverða og sagði það kunnuglegt stef sem fylgdi um hótanir um málsóknir.

„Síðan eru orðræðan sem aftur er gamalkunnug. Að ræða um að viðkomandi séu geðveikar, sviksamar lygakvendi. Þetta minnir okkur á þessi stef um konur, að köld séu kvennaráð,“ sagði Gyða Margrét og að á sama tíma drægi þetta úr atbeina þeirra sem eigi í hlut.

Gyða Margrét fór að lokum yfir viðbrögð kvennanna við kynferðislegu áreitinni en fjallað hefur verið um að fyrstu viðbrögð þeirra hafi verið að hlæja og gera grín.

„Það sem við sjáum í gegnum mýmargar rannsóknir í gegnum þessarar hundruð metoo frásagnir sem hafa verið birtar að þetta eru bara mjög oft fyrstu viðbrögð,“ sagði hún og að þetta væri hreinlega ráð til þess að komast í gegnum daginn en á sama tíma það sem kemur oft í veg fyrir að konur geti sinnt stjórnmálum eða öðrum álíka störfum af alvöru.

Gyða Margrét sagði það einnig klassískt að gerendur segi áreitni sína vera grín eða brandara.

Viðtalið er hægt að horfa á í heild sinni hér að neðan. Það hefst á sjöttu mínútu þáttarins, það er 06:00.