Vísindamenn við Oxford háskóla hafa sýnt fram á það að hlátur geti á margvíslegan hátt verið heilsubætandi. Við eigum þó enn langt í land með að skilja fullkomlega hvað gerist, en svo virðist sem við reynum talsvert á okkur þegar við hlæjum. Blóðflæði eykst, súrefnisupptaka batnar, blóðþrýstingur lækkar sem og spenna í vöðvum. Við styrkjum ónæmiskerfið, drögum úr streitu og síðast en ekki síst virðist hlátur hafa áhrif á verkjanæmi sem dregur úr þörf á lyfjum svo dæmi sé tekið.


Heilinn finnur mun á innilegum hlátri og þeim tilgerðarlega


Þeir sömu segja að heilinn geti áttað sig á því sem kalla mætti innilegan losandi hlátur og þeim tilgerðarlega og er munur á losun endorfína eftir því hvort er. Líkamlegu áhrifin eru hins vegar svipuð. Það er hollt að vera í kringum fólk og hlæja, við höfum eiginlega alltaf vitað það. Svo virðist hins vegar sem það að hlæja jafnvel í iðkun eins og hláturjóga geti bætt heilsu okkar. Það er því ekki eftir neinu að bíða með að kitla hláturtaugarnar strax í dag.