„Við ætlum fyrst og fremst að taka þetta í rólegum skrefum,“ segir Ásgeir Einarsson, einn eigenda Gíslabæjar á Hellnum, um áformaða uppbyggingu ferðaþjónustu á jörðinni.

Eins og fram kom í Fréttablaðinu í gær felur auglýst breyting á aðalskipulagi á Hellnum meðal annars í sér að hægt verður að reisa átta 40 fermetra ferðaþjónustuhús ofan vegar við Gíslabæ og 1.200 fermetra hótelbyggingu á lóð neðan vegar. Á neðri lóðinni er þegar heimild fyrir slíku byggingarmagni, þótt það sé ekki skilgreint undir gistiþjónustu.

Harðar gagnrýnisraddir eru uppi vegna þessara áforma eins og sagt var frá í gær. Ásgeir segir sér sýnast athugasemdirnar að miklu leyti byggðar á misskilningi.

„Meiningin er að byrja hægt með smáhýsum fyrir ofan veg og meta eftirspurnina. Þá sjáum við hvort það er þörf á veitingum og þess háttar og þá getum við tekið upplýsta ákvörðun um það hvað á að gera fyrir neðan veg,“ útskýrir Ásgeir. Hann bendir á að skipulagsvinna sé dýr og þess vegna séu báðir reitirnir inni í myndinni.

Ásamt Kristjáni bróður sínum og föður þeirra, Einari Ásgeirssyni, kom Ásgeir á fót og rekur gistiþjónustuna Blackbeach Suites í Vík í Mýrdal.

„Eins og flest ferðaþjónustufyrirtæki höfum við ekki mikið á milli handanna og þess vegna er mikilvægt að gera þetta á hagkvæman hátt,“ segir Ásgeir. Hann áttar sig illa á því hvers vegna gefið sé í skyn að þeir feðgar séu hluti af einhverjum peningaöflum.

„Fólk sem þekkir okkur og las þetta hló mikið. Við erum ekki fjárfestar heldur rekstrarmenn sem stöndum á gólfinu allar vaktir. Mér finnst dálítið illa þarna vegið að verkefninu og við kannski vera svolítið misskildir. Það eru engin peningaöfl að fara af stað með massífar hótelframkvæmdir. Þetta á að byggjast upp á löngum tíma,“ ítrekar Ásgeir.

Að því er Ásgeir segir er ekkert launungarmál að reitur fyrir neðan veg hafi að miklu leyti verið forsendan fyrir kaupum þeirra á Gíslabæjarlandinu í fyrra.

„Þetta er flott lóð sem þegar er skipulögð sem verslunar- og þjónustureitur. Það lá fyrir að þarna gæti risið bygging,“ segir Ásgeir sem aðspurður segir enn of snemmt að ákveða nákvæmlega hvernig verði byggt á Gíslabæ.

„Það hefur aldrei staðið til hjá okkur að gera eitthvað sem fellur ekki í kramið hjá fólki þarna í kring. Það er rekstur þarna fyrir og þetta á bara eftir að efla hann. Vonandi verður svæðið sterkara fyrir vikið,“ segir Ásgeir.

Eftir helgi verður fjarfundur á vegum Snæfellsbæjar um aðalskipulagsbreytinguna. Þar verða hagsmunaaðilar fyrir svörum og allir geta borið upp spurningar.

„Við hlökkum til að taka þátt og ræða allar athugasemdir. Vonandi finnst góð og farsæl lausn. Það var alltaf forsendan að þetta falli vel í byggðarlagið,“ segir Ásgeir

Blackbeach Suites þeirra feðga í Vík í Mýrdal byggir á hótelíbúðum og hosteli og er á sínu þriðja rekstrarári. „Það hefur gengið mjög vel og við vildum endurtaka leikinn á öðru svona skemmtilegu svæði,“ segir Ásgeir Einarsson.