Mercedes-Benz Sprinter bíllinn er mjög breyttur og útbúinn með stýripinnum sem stýra inngjöf og bremsum og öllu því sem bílstjórinn þarf til að keyra bílinn. Arnar fer inn í bílinn að aftanverðu í sérútbúinni lyftu sem kemur honum upp í bílinn. Þaðan getur hann komist á hjólastólnum frammí og situr síðan í hjólastólnum undir stýrinu. „Ég lenti í slysi fyrir þrettán árum og hef verið í hjólastól síðan. Ég átti Renault-bíl sem ég ók í átta ár og hann reyndist mér þokkalega. Það var ekki samt nógu gott útsýni úr Renault-bílnum og ég naut þess ekki nógu vel að sitja í bílnum, hvort heldur var sem ökumaður eða farþegi. Nágranni minn fékk sér Mercedes-Benz og eftir að ég settist inn í bílinn varð ég mjög hrifinn af honum. Ég ákvað því að fá mér Mercedes-Benz og er mjög ánægður með hann. MercedesBenz-bíllinn er stór og rúmgóður og það er sérlega gott útsýni úr honum,“ segir Arnar. Hann segir að þetta sé í fyrsta skipti sem hann eignist þýskan bíl. „Ég hef aðallega ekið frönskum bílum í gegnum tíðina en eignast nú Mercedes-Benz seint á ævinni. Það var kominn tími til að prófa þýskan bíl og þetta er hinn glæsilegasti bíll,“ segir hann og bætir við: „Ég hlakka til að fara að keyra aftur. Ég er sérlega spenntur að fara vestur á Ísafjörð í sumar en þar er ég fæddur og hef verið búsettur þar nær alla mína ævi.“

Öryggismiðstöðin hefur unnið við að breyta bílum fyrir hreyfihamlaða í 20 ár og hefur séð um breytingar á fjölmörgum bílum. Breytingarnar eru framkvæmdar á sérhæfðu verkstæði Öryggismiðstöðvarinnar. „Langalgengasta breytingin er að setja upp akstursstöng fyrir inngjöf og bremsur sem gagnast helst fólki sem er lamað í fótum en hefur fullan mátt í höndunum og getur setið inni í hvaða bíl sem er. Við hjá Öryggismiðstöðinni leggjum okkur fram um að aðlaga bifreiðar að getu og færni einstaklinga. Það eru ótrúlega margar lausnir í boði og mikilvægt að byrja að skoða lausnir hjá okkur áður en fjárfest er í bifreið sem setur ákveðna annmarka á hvað hægt er að gera seinna meir,“ segir Stefán E. Hafsteinsson, iðjuþjálfi hjá Öryggismiðstöðinni. Bíllinn sem Arnar fær er Mercedes-Benz Sprinter 216 og er hann ríkulega útbúinn. Bíllinn er með 163 hestafla dísil-vél með nýjasta mengunarvarnabúnaði. Hann er með sjö þrepa sjálfskiptingu, rafmagnsstýri, stafrænni miðstöð með loftkælingu, blindsvæðisvara, fullkominni bakkmyndavél með tveimur linsum, fjarlægðarskynjurum og Artico-leðuráklæði, svo eitthvað sé nefnt.

Arnar rúllar sér í hjólastólnum inn að aftanverðu. MYNDIR/RÓBERT RÓBERTSSON