María Fjóla Harðardóttir, forstjóri Hrafnistuheimilanna, er himinlifandi yfir fregnum dagsins en líkt og flestir vita þá tilkynnti ríkisstjórnin í dag að öllum sóttvarnartakmörkunum verði aflétt á miðnætti.

„Í þessu felst meðal annars fullt afnám grímuskyldu, nándarreglu og fjöldatakmarkana. Við vitum alveg að það getur alltaf eitthvað gerst, við erum búin að læra það á fimmtán mánuðum en við verðum líka að þora að stíga skref þegar forsendur eru til að stíga þau,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra á blaðamannafundi í morgun.

Tekin var ákvörðun um miðjan júnímánuð að aflétta takmörkunum innan Hrafnistu þegar allir starfsmenn og íbúar voru bólusettir þannig ekki mikið breytist á hjúkrunar- og dvalarheimili eftir nýjust vendingar. Þetta eru þó ákveðin léttir að sögn Maríu.

„Maður áttaði sig kannski á alvarleikanum þegar maður er í miðju stríði. Þegar ég lít til baka átta ég mig á því hversu umfangsmikið og óhugnanlegt þetta var,“ segir María í samtali við Fréttablaðið. Faraldurinn var sérstaklega erfiður við íbúa, starfsmenn og stjórnendur hjúkrunar- og dvalarheimila, enda tilheyra íbúarnir áhættuhópi. Hjúkrunar-og dvalarheimili fengu sérstakar leiðbeiningar frá sóttvarnaryfirvöldum og þurftu eðlilega að fylgja ströngum reglum í gegnum allan faraldurinn.

Allt lifnaði við eftir bólusetningar

„Við erum að fara út úr þessum heimsfaraldri. Þetta er sannarlega stórt skref.“

María segir gott að vita hversu vel gekk. Hún bendir á að lítill hluti hjúkrunarheimila sé með starfsmenn með faglega menntun og því með ólíkindum hvers vel allir gengu saman í takt. Öll þau sem voru ólærð fylgdu ráðum sérfræðinga frá A til Ö.

„Við erum með 800 íbúa og 1600 starfsmenn og við erum ekki sterkari en veikasti hlekkurinn. Það þurfti bara einn veikan hlekk, sem var ótrúlega óhugnanlegt.“

Segist hún hafa séð mikla breytingu eftir að bólusetningar hófust.

„Þegar við breyttum umgengnisreglum lifnuðu húsin við með söng og gleði. Við erum með ótrúlega magnaðan starfsmannahóp og magnað fagfólk sem náði að leiðbeina, kenna og stýra. Stjórnendur voru á vaktinni sólarhringum saman“

Hún segist þakklát fyrir starfsmannahópinn og fagfólkið sem leiðbeindi og kenndi öðrum, eins stjórnendum sem voru á vaktinni sólarhringum saman.

Lærdómurinn sem ég dreg af þessu er að við getum farið í gegnum svona og staðið það af okkur.