Elín Tryggva­dóttir, hjúkrunar­fræðingur á bráða­vakt Land­spítalans, er harðorð í garð fjármálaráðherra eftir orð hans í fréttum í gær um að það sé ó­á­sættan­legt að heil­brigðis­kerfið ráði ekki við fjórðu bylgjuna. Það sagði Bjarni í fréttum á RÚV í gær.

Elín segist hissa á því að Bjarni sé aðeins að gera sér grein fyrir álaginu á spítalanum núna og að hann hafi líklega verið upptekinn við eitthvað annað á meðan starfsfólk spítalans hefur lýst vandanum fyrir ráðamönnum síðustu ár.

„Kæri Bjarni, Ég er búin að telja upp á tíu, tuttugu, þrjá­tíu og hundrað. Ég held samt að sama hversu hátt ég tel, fer með alla auka­stafi pí, fái mér sobril eða fari í jóga, ég mun ekki ná úr mér reiðinni nema skila skömminni þangað sem hún á heima. Ég gerði þau mis­tök að lesa við­tal við Sjálf­stæðis­mann í kosninga­bar­áttu á ruv.is 6.ágúst,“ segir Elín í færslu sem hún birti á sam­fé­lags­miðlum í gær.

Hún segir Bjarna vera að átta sig heldur seint á því að heil­brigðis­kerfið ráði ekki við verk­efni sín og að það sé „frekar súrt“ að í ágúst árið 2021 sé hann hissa á því að heil­brigðis­kerfið standi ekki undir á­lagi.

„Við sem störfum á gólfinu erum búin að segja þér það marg­oft, þú hefur bara ein­hverra hluta vegna ekki verið að hlusta. Það eru reyndar nokkur ár síðan við byrjuðum að reyna að ná eyrum stjórn­valda með hinum ýmsu ráðum en þú hefur kannski verið upp­tekinn við eitt­hvað annað,“ segir Elín í færslu sinni.

Bjarni vinni með peninga en ekki fólk

Hún segir að Bjarni hafi síðan af­vega­leiðst í við­tali við Vísi í gær því þar hafi hann farið að spá í því hvað valdi því meiri fram­leiðni sé ekki náð þrátt fyrir að kerfið sé fjár­magnað betur og að mönnum hafi verið bætt.

Elín segir að hún geti fyrir­gefið þennan mis­skilning því að Bjarni sé vanur að vinna með peninga en ekki fólki.

„Vinna með fólk er nefni­lega dá­lítið öðru­vísi Bjarni. Á­vöxtunin þegar starfað er við að bjarga manns­lífum skilar sér ekki í bein­hörðum peningum heldur í gjald­miðlunum hamingju, líkn, heil­brigði og vel­líðan sem svo skilar sér aftur inn í þjóðar­búið þegar skjól­stæðingarnir ná bata. Við hjúkrum og læknum ekkert hraðar þótt meiri peningur hafi verið lagður í nýtt þjóðar­sjúkra­hús, sem enn er bara stór hola við Hring­braut. Við hjúkrum og læknum ekkert hraðar þótt þið hafið bætt í mönnun þegar mann­skapurinn sem var ráðinn til starfa er hvorki hjúkrunar­fræðingar né læknar hvað þá sjúkra­liðar, lífeinda­fræðingar eða geisla­fræðingar. Það skiptir nefni­lega máli hvaða fólk er ráðið inn sjáðu til,“ segir Elín.

Bjarni sitji við stjórn í bilaða vagninum

Hún segir að sam­líking hans á heil­brigðis­kerfinu við lest sé í raun skemmti­leg og raun­sönn því að til að lest geti náð frá A til B þurfi allir vagnar að fara á sama hvaða, í sömu átt og að vera á sama sporinu.

„Þú talar um að ef einn vagn á lestinni sé með bilaðan hjóla­búnað geti hann dregið alla lestina niður á hraða. Þú ert senni­lega að gefa í skyn að Land­spítali sé bilaði vagninn en áttar þig ekki á því að það ert þú sem situr við stjórn í bilaða vagninum. Bilaði vagninn er eim­reiðin sem á að knýja lestina á­fram og ég vona að þú áttir þig á því fyrr en síðar,“ segir Elín.

Hún segir að mann­auður heil­brigðis­kerfisins sé stór­kost­legur og að hann taki það ekki frá þeim með því að lýsa yfir von­brigðum með af­köst þeirra.

„Við höfum vaðið eld og brenni­stein til að halda lestinni gangandi. Ekki bara síðan far­aldurinn hófst heldur miklu fyrr. En þú veist það alveg Bjarni þótt þú hafir kannski ekki viður­kennt það,“ segir Elín og hvetur Bjarna til að laga bremsurnar á eim­reiðinni og til að gefa al­menni­lega í.

„Það er nefni­lega eins með lestar­stjórana og skip­stjórana, það er ekki í boði að stökkva frá borði þegar stór­slys er í upp­siglingu.“

Færslan er hér að neðan.