Elín Tryggvadóttir, hjúkrunarfræðingur á bráðavakt Landspítalans, er harðorð í garð fjármálaráðherra eftir orð hans í fréttum í gær um að það sé óásættanlegt að heilbrigðiskerfið ráði ekki við fjórðu bylgjuna. Það sagði Bjarni í fréttum á RÚV í gær.
Elín segist hissa á því að Bjarni sé aðeins að gera sér grein fyrir álaginu á spítalanum núna og að hann hafi líklega verið upptekinn við eitthvað annað á meðan starfsfólk spítalans hefur lýst vandanum fyrir ráðamönnum síðustu ár.
„Kæri Bjarni, Ég er búin að telja upp á tíu, tuttugu, þrjátíu og hundrað. Ég held samt að sama hversu hátt ég tel, fer með alla aukastafi pí, fái mér sobril eða fari í jóga, ég mun ekki ná úr mér reiðinni nema skila skömminni þangað sem hún á heima. Ég gerði þau mistök að lesa viðtal við Sjálfstæðismann í kosningabaráttu á ruv.is 6.ágúst,“ segir Elín í færslu sem hún birti á samfélagsmiðlum í gær.
Hún segir Bjarna vera að átta sig heldur seint á því að heilbrigðiskerfið ráði ekki við verkefni sín og að það sé „frekar súrt“ að í ágúst árið 2021 sé hann hissa á því að heilbrigðiskerfið standi ekki undir álagi.
„Við sem störfum á gólfinu erum búin að segja þér það margoft, þú hefur bara einhverra hluta vegna ekki verið að hlusta. Það eru reyndar nokkur ár síðan við byrjuðum að reyna að ná eyrum stjórnvalda með hinum ýmsu ráðum en þú hefur kannski verið upptekinn við eitthvað annað,“ segir Elín í færslu sinni.
Bjarni vinni með peninga en ekki fólk
Hún segir að Bjarni hafi síðan afvegaleiðst í viðtali við Vísi í gær því þar hafi hann farið að spá í því hvað valdi því meiri framleiðni sé ekki náð þrátt fyrir að kerfið sé fjármagnað betur og að mönnum hafi verið bætt.
Elín segir að hún geti fyrirgefið þennan misskilning því að Bjarni sé vanur að vinna með peninga en ekki fólki.
„Vinna með fólk er nefnilega dálítið öðruvísi Bjarni. Ávöxtunin þegar starfað er við að bjarga mannslífum skilar sér ekki í beinhörðum peningum heldur í gjaldmiðlunum hamingju, líkn, heilbrigði og vellíðan sem svo skilar sér aftur inn í þjóðarbúið þegar skjólstæðingarnir ná bata. Við hjúkrum og læknum ekkert hraðar þótt meiri peningur hafi verið lagður í nýtt þjóðarsjúkrahús, sem enn er bara stór hola við Hringbraut. Við hjúkrum og læknum ekkert hraðar þótt þið hafið bætt í mönnun þegar mannskapurinn sem var ráðinn til starfa er hvorki hjúkrunarfræðingar né læknar hvað þá sjúkraliðar, lífeindafræðingar eða geislafræðingar. Það skiptir nefnilega máli hvaða fólk er ráðið inn sjáðu til,“ segir Elín.
Bjarni sitji við stjórn í bilaða vagninum
Hún segir að samlíking hans á heilbrigðiskerfinu við lest sé í raun skemmtileg og raunsönn því að til að lest geti náð frá A til B þurfi allir vagnar að fara á sama hvaða, í sömu átt og að vera á sama sporinu.
„Þú talar um að ef einn vagn á lestinni sé með bilaðan hjólabúnað geti hann dregið alla lestina niður á hraða. Þú ert sennilega að gefa í skyn að Landspítali sé bilaði vagninn en áttar þig ekki á því að það ert þú sem situr við stjórn í bilaða vagninum. Bilaði vagninn er eimreiðin sem á að knýja lestina áfram og ég vona að þú áttir þig á því fyrr en síðar,“ segir Elín.
Hún segir að mannauður heilbrigðiskerfisins sé stórkostlegur og að hann taki það ekki frá þeim með því að lýsa yfir vonbrigðum með afköst þeirra.
„Við höfum vaðið eld og brennistein til að halda lestinni gangandi. Ekki bara síðan faraldurinn hófst heldur miklu fyrr. En þú veist það alveg Bjarni þótt þú hafir kannski ekki viðurkennt það,“ segir Elín og hvetur Bjarna til að laga bremsurnar á eimreiðinni og til að gefa almennilega í.
„Það er nefnilega eins með lestarstjórana og skipstjórana, það er ekki í boði að stökkva frá borði þegar stórslys er í uppsiglingu.“
Færslan er hér að neðan.