Gísli Finns­son, sem dvalið hefur á sjúkra­húsi á Tor­revi­eja á Spáni undan­farnar vikur lenti með sjúkra­flugi á Reykja­víkur­flug­velli snemma í gær­kvöldi.

Hildur Torfa­dóttir, barns­móðir Gísla, segir flugið hafa gengið vel og hann sé nú kominn á Land­spítalann.

„Þetta gekk allt rosa­lega vel og við mættum þarna stór­fjöl­skyldan á flug­völlinn til að taka á móti honum. Við fengum ekki að sjá hann strax, en hann fór beint upp í sjúkra­bíl og á spítala. Þar fengum við strax að fara inn og hitta hann og vorum hjá honum í gær, ég og Amelía dóttir hans,“ segir Hildur.

Stórfjölskylda Gísla mætti á Reykjavíkurflugvöll til að fylgjast með lendingu norsku sjúkraflugvélarinnar sem lenti með Gísla innanborðs rétt fyrir klukkan sex í gærkvöldi.
Mynd/Aðsend

Hildur segir það ó­trú­legan létti að Gísli sé loksins kominn til landsins. Það minnki tals­vert á­hyggjur að­stand­enda hans.

„Ég held að ég geti alveg talað fyrir alla þegar ég segi að maður hafi sofið mikið betur í nótt en allar síðustu vikur, bara vitandi af honum í svona góðum höndum,“ segir Hildur. Hjúkrunar­fræðingarnir sem hafi tekið á móti honum hafi sam­stundis byrjað að sinna honum.

„Það var ekkert búið að baða hann al­menni­lega eða hugsa um hann. Hann var allur út í legu­sárum. Þær fóru strax í að baða hann og græja þessi legu­sár,“ segir Hildur og bætir við:

„Hann fékk enga svona um­önnun þarna úti, það var bara haldið í honum lífi. Þær sögðu líka að hann væri mjög van­nærður og hefði pott­þétt ekki fengið nógu mikla næringu hjá þeim þarna úti. Þannig að það var farið fullt í það að gefa honum svona „basic care“, bara hugsa vel um hann,“ segir Hildur.

Að sögn Hildar vissu að­stand­endur hans af því að starfs­menn spítalans ytra hefðu ekki verið að sinna Gísla sem skyldi. Það hafi komið í þeirra hlut að sjá um þessa hluti þegar þau voru úti hjá honum.

„Við vissum þetta alveg og vorum að þessu sjálf þegar við vorum þarna úti. Við vorum að þrífa hann og tann­bursta hann … en að heyra þær segja þetta … það var meira svona „vá, and­skotinn að hann hafi ekki komið fyrr heim“ þegar maður sér hvað það er miklu betur hugsað um hann hér,“ segir Hildur.

Að­spurð um hvað taki nú við hjá Gísla segist Hildur ekki vita það ná­kvæm­lega að svo stöddu.
„Hann er eigin­lega á byrjunar­reit. Það þarf að rann­saka allt, stöðuna á honum og svo verða ein­hverjar á­kvarðanir teknar í fram­haldinu. Hann fer í mynda­tökur og blóð­prufur og allt þetta,“ segir Hildur.

Sjúkraflutningamenn fluttu Gísla samstundis á Landspítalann eftir lendingu.
Mynd/Aðsend