Í dag voru brautskráðir fjórtán hjúkrunarfræðingar af nýrri námsleið fyrir fólk sem áður hefur lokið háskólagráðu í öðru fagi en hjúkrun. Valgerður Björg Hafsteinsdóttir er ein þeirra sem útskrifaðist í dag, en hún segir að gamall draumur hafi ræst.
„Þetta er ný námsleið sem var opnuð 2020 fyrir fólk sem er með háskólapróf, til þess að mæta þörfinni og skortinum sem er á hjúkrunarfræðingum. Þá er þessi leið einnig til þess að koma til móts við fólk sem hefur brennandi áhuga á hjúkrun og hefur ekki ekki séð sér fært á að fara í nýtt fjögurra ára nám, með fjölskyldur og mögulega búið að fara í gegnum annað langt og krefjandi nám,“ segir Valgerður.
Valgerður er með B.A. próf frá myndlistadeild Listaháskóla Íslands. Hún segir valið alltaf hafa staðið á milli hjúkrunar og myndlistar en hjúkrunin hafi alltaf blundað í sér.
„Svo kom tækifærið og ég ákvað að grípa það“ segir Valgerður.

Krefjandi og skemmtilegt nám
Valgerður segir námið hafa verið krefjandi en á sama tíma skemmtilegt. „Við vorum lítill hópur þannig við vorum dugleg að draga hvort annað áfram. Það sem gerði lífið okkar auðveldara í þessu námi, það var samheldnin,“ segir Valgerður.
Valgerður segir að námið ekki hafa verið styttra en hefðbundið hjúkrunarfræðinám, heldur samþjappaðra. „Við tókum fleiri kúrsa í einu. Það var mikil keyrsla á sumrin og jólafríin fóru í lestur. Við tókum alla þessa bóklegu áfanga, ásamt verklega hlutanum af náminu. Þar fyrir utan þurftum við að vinna 480 stundir sem hjúkrunarfræðinemar,“ segir Valgerður.
Í dag var stóri dagurinn og útskrifuðust Valgerður og þrettán aðrir af þessari námsleið sem hjúkrunarfræðingar. Valgerður segir marga samnemenda hennar komna með starf í heilbrigðisgeiranum, enda mikið ákall eftir hjúkrunarfræðingum.
„Maður er bara svolítið að lenda á jörðinni. Það er búið að vera mikið að gera og námið hefur verið ótrúlega krefjandi. Við erum mörg að ná andanum eftir þetta allt saman og finna hvar hjartað slær á þeim fjölbreytta starfsvettvangi sem hjúkrunin hefur upp á að bjóða,“ segir Valgerður Björg Hafsteinsdóttir, hjúkrunarfræðingur.