Í dag voru braut­skráðir fjór­tán hjúkrunar­fræðingar af nýrri náms­leið fyrir fólk sem áður hefur lokið há­skóla­gráðu í öðru fagi en hjúkrun. Val­gerður Björg Hafsteinsdóttir er ein þeirra sem út­skrifaðist í dag, en hún segir að gamall draumur hafi ræst.

„Þetta er ný náms­leið sem var opnuð 2020 fyrir fólk sem er með há­skóla­próf, til þess að mæta þörfinni og skortinum sem er á hjúkrunar­fræðingum. Þá er þessi leið einnig til þess að koma til móts við fólk sem hefur brennandi á­huga á hjúkrun og hefur ekki ekki séð sér fært á að fara í nýtt fjögurra ára nám, með fjöl­skyldur og mögu­lega búið að fara í gegnum annað langt og krefjandi nám,“ segir Valgerður.

Val­gerður er með B.A. próf frá mynd­lista­deild Lista­há­skóla Ís­lands. Hún segir valið alltaf hafa staðið á milli hjúkrunar og mynd­listar en hjúkrunin hafi alltaf blundað í sér.

„Svo kom tæki­færið og ég á­kvað að grípa það“ segir Val­gerður.

Val­gerður Björg Hafsteinsdóttir er ein þeirra sem út­skrifaðist í dag.
Fréttablaðið/Aðsend

Krefjandi og skemmti­legt nám

Val­gerður segir námið hafa verið krefjandi en á sama tíma skemmti­legt. „Við vorum lítill hópur þannig við vorum dug­leg að draga hvort annað á­fram. Það sem gerði lífið okkar auð­veldara í þessu námi, það var sam­heldnin,“ segir Val­gerður.

Val­gerður segir að námið ekki hafa verið styttra en hefð­bundið hjúkrunar­fræði­nám, heldur sam­þjappaðra. „Við tókum fleiri kúrsa í einu. Það var mikil keyrsla á sumrin og jóla­fríin fóru í lestur. Við tókum alla þessa bók­legu á­fanga, á­samt verk­lega hlutanum af náminu. Þar fyrir utan þurftum við að vinna 480 stundir sem hjúkrunar­fræði­nemar,“ segir Val­gerður.

Í dag var stóri dagurinn og út­skrifuðust Val­gerður og þrettán aðrir af þessari náms­leið sem hjúkrunar­fræðingar. Val­gerður segir marga sam­nem­enda hennar komna með starf í heil­brigðis­geiranum, enda mikið á­kall eftir hjúkrunar­fræðingum.

„Maður er bara svolítið að lenda á jörðinni. Það er búið að vera mikið að gera og námið hefur verið ó­trú­lega krefjandi. Við erum mörg að ná andanum eftir þetta allt saman og finna hvar hjartað slær á þeim fjöl­breytta starfs­vett­vangi sem hjúkrunin hefur upp á að bjóða,“ segir Val­gerður Björg Hafsteinsdóttir, hjúkrunarfræðingur.