Hjúkrunarfræðingar lýsa yfir áhyggjum yfir vöntun á hjúkrunarfræðingum. Í ályktun sem Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga sendi frá sér fyrir stundu er vakið máls á mönnunarvanda sem brátt gæti valdið heilbrigðiskerfinu og sjúklingum sem á það reiða miklu tjóni. Í ályktuninni, sem samþykkt var á aðalfundi félagsins, er skorað á stjórnvöld til þess að bæta kjör og starfsumhverfi stéttarinnar til þess að fjölga hjúkrunarfræðingum og sporna við ískyggilegri þróun.

Í greinargerð ályktunarinnar kemur fram „Tryggja þarf nægan fjölda hjúkrunarfræðinga og draga úr brottfalli þeirra úr starfi skömmu eftir útskrift. Sporna þarf við því að hjúkrunarfræðingar sæki í önnur störf og fá þá sem hafa horfið til annarra starfa aftur til baka.”

Bent er á að lausnir og tillögur að úrbótum sé að finna í skýrslum heilbrigðisráðuneytisins Mönnun hjúkrunarfræðinga sem kom út árið 2020 og Tillögur til fjölgunar útskrifaðra hjúkrunarfræðinga sem gefin var út sama ár.

Á fundinum var einnig samþykkt að skora á Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, að beita sér fyrir því að leiðrétta kynbundin launamun sem leggst á hjúkrunarfræðinga og aðrar stéttir kvenlægar stéttir þar sem gerðar eru svipaðar kröfur um menntun og ábyrgð í starfi.

Þá kemur fram í ályktuninni að mönnun hjúkrunarfræðinga ógni nú þegar öryggi skjólstæðinga og starfsfólks heilbrigðiskerfisins. Stjórnvöld þurfi að beita sér fyrir lagasetningu sem tekur á þessum vanda og koma mönnunarviðmiðum sem svipa til þeirra sem þekkjast í öðrum löndum.

Á fundinum var skorað á stjórnvöld og ráðherra til þess að beita sér fyrir að bæta kjör og breyta lagarammanum sem nær utanum starfsemina og stéttina
Fréttablaðið/Aðsend

Félag hjúkrunarfræðinga biðlar einnig til stjórnvalda að breyta lögum í tengslum við tilkynningar, rannsókn og málsmeðferð alvarlegra atvika í heilbrigðisþjónustu þar sem hjúkrunarfræðingar og annað heilbrigðisstarfsfólk kemur við sögu. Raunar hafa undanfarin ár og aðfarir stjórnvalda að stéttinni gert það að verkum að nauðsynlegt er að taka lagaramman í kringum starfsemina til endurskoðunar.

Í ályktuninni er einnig farið fram á að heilbrigðisráðherra beiti sér fyrir því að sjúkratryggingar taki þátt í að greiða fyrir heilbrigðisþjónustu sem veitt er af hjúkrunarfræðingum á sama hátt og gert er fyrir aðrar heilbrigðisstéttir. Þess er getið að aukin kaup hins opinbera af sjálfstæðri þjónustu hjúkrunarfræðinga tryggi bætt aðgengi, auki skilvirkni og stuðli að nýsköpun í heilbrigðiskerfinu.