Hjalti Már Björns­son, yfir­læknir á bráða­mót­töku Land­spítalans, segir að bráða­mót­takan sé við­búin öllu vegna næstu helgar.

Fréttablaðið hefur heimildir fyrir því að hjúkrunarfræðingar á bráðamóttökunni hafi verið beðnir um að koma til vinnu með stuttum fyrirvara vegna spennu í undirheimunum. Í gær var greint frá því að lögregla væri að rannsaka óhugnanleg skilaboð sem hafa gengið manna á milli á samfélagsmiðlum þar sem fólk er varað við því að fara í mið­bæinn um næstu helgi.

Fréttablaðið ræddi við Hjalta Má í hádeginu og hann segir að bráðamóttakan sé við öllu búin eins og venjulega. Hann gagnrýndi þó að fjölmiðlar væru að kynda undir allt í kringum hugsanlega hefndarárás sem var sögð í undirbúningi um næstu helgi.

Í skilaboðunum sem lögregla hefur til skoðunar kom meðal annars fram að einstaklingar sem urðu fyrir árás á Banka­stræti Club í síðustu viku ætluðu að hefna sín og væru með hnífaárás í undirbúningi, bæði á dyra­verði sem og al­menna borgara. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur það nú til skoðunar en viðbúnaður hennar í miðbænum hefur verið efldur undanfarna daga.

Hjalti Már segir að Land­spítalinn muni ekki tjá sig meira um þessi mál, en hann segir að bráða­mót­takan sé við­búinn öllu eins og venju­lega.

„Þetta er eigin­lega orðinn fjöl­miðlasirkus um það hvað er verið að hæpa upp allt í kringum þetta og það verða því miður engar yfir­lýsingar frá okkur hvernig við rekum okkar starf­semi. Við erum við­búinn öllu eins og venju­lega,“ segir Hjalti.