Tæp­lega þrjá­tíu hjúkrunar­fræðingar á bráða­mót­töku Land­spítalans hætta störfum á næstu mánuðum, en sí­vaxandi álag hefur orðið til þess að hjúkrunar­fræðingar hafa sagt upp í hrönnum síðustu mánuði.

Soffía Stein­gríms­dóttir, bráða­hjúkrunar­fræðingur, er ein af fjór­tán hjúkrunar­fræðingum sem hætta á morgun, en hún hefur starfað á bráða­mót­tökunni til fjölda ára. Í við­tali við Frétta­vaktina segist Soffía uggandi yfir þessari stöðu. Gríðar­leg þekking og reynsla sé að hverfa úr stéttinni, sem geri stöðu bráða­mót­tökunnar þeim mun strembnari.

„Staðan verður náttúru­lega gríðar­lega erfið. Því bráða­mót­takan er þannig vinnu­staður að þarna kemur ekki bara maður í manns stað því að þetta er reynsla sem maður verður að fá og ég myndi segja að það tæki svona tvö ár að ná upp al­menni­legri þekkingu og reynslu og klínískt nef til þess að vera öruggur í vinnu á bráða­mót­töku. Þannig að það er gríðar­leg þekking og reynsla að fara þarna út úr húsi,“ segir Soffía.

Hér fyrir neðan má sjá stutta klippu úr við­talinu við Soffíu, en við­talið í heild sinni má sjá í Frétta­vaktinni á Hring­braut í kvöld klukkan 18:30.