Fé­lag ís­lenskra hjúkrunar­fræðinga (Fíh) hefur boðað til raf­rænnar at­kvæða­greiðslu meðal fé­lags­manna sinna um hvort grípa eigi til verk­falls­að­gerða. Fé­lagið á í við­ræðum við samninga­nefnd ríkisins um nýjan kjara­samning en kjara­samningar hjúkrunar­fræðinga hafa verið lausir í rúmt ár.

„Við erum enn þá að tala saman en áttum mjög þungan fund í dag,“ segir Guð­björg Páls­dóttir, for­maður Fhí, í sam­tali við Frétta­blaðið. Samninga­nefndir Fíh og ríkisins hafa fundað nokkuð stíft með ríkis­sátta­semjara upp á síð­kastið en lítið hefur þó gerst í við­ræðunum. Fé­lags­menn Fíh felldu kjara­samning, sem gerður hafði verið milli samninga­nefndanna, í lok apríl.


„Við vorum búin að á­kveða þetta því þetta er ferli sem tekur tíma. Annars vegar at­kvæða­greiðslan og ef að þarf að boða til verk­falls þá þurfa að líða fimm­tán dagar frá því að við til­kynnum for­mönnum samninga­nefndar og ríkis­sátta­semjara þar til verk­fallið hefst,“ út­skýrir Guð­björg.


At­kvæða­greiðslan hefst í kvöld klukkan 20 og nær til rúm­lega 2.500 hjúkrunar­fræðinga sem starfa hjá ríkinu. Kosið verður um hvort grípa eigi til ó­tíma­bundins verk­falls en at­kvæða­greiðslunni lýkur á há­degi næsta föstu­dag.


Að­spurð hvort hún búist við að sam­þykkt verði að grípa til verk­falls­að­gerða segir Guð­björg: „Ég tel nú meiri líkur á því en minni ef marka má könnun sem við gerðum meðal fé­lags­manna okkar.“ Þar kom fram að að­eins 30 prósent hjúkrunar­fræðinga sem vildu ekki grípa til neinna að­gerða. „Þannig við verðum að fá þetta alveg á hreint núna og við fáum að vita hvað fé­lags­menn okkar vilja á há­degi á föstu­daginn.“