„Ég hef fengið ótrúlega mikið af ábendingum og mikill fjöldi nemenda hefur leitað til mín,“ segir Eyrún Baldursdóttir bekkjarfulltrúi í námsnefnd hjúkrunarfræðideildar Háskóla Íslands og sviðsráðsforseti, en mikil óánægja ríkir meðal nemenda sem stunda verknám í hjúkrunarfræði, vegna strangra krafna um viðveru.

„Við erum með 95 prósenta mætingarskyldu sem þýðir að í þriggja vikna verknámstörn eru það sex klukkustundir sem við getum verið frá,“ segir Eyrún. Nemendur á þriðja ári í hjúkrunarfræði eru í verknámi í sextán vikur á þessari önn og segir Eyrún lítið svigrúm, verði nemendur veikir eða komist ekki til náms af einhverjum ástæðum.

„Menningin er sú að ef eitthvað kemur upp á þá átt þú að vinna það upp, sem er auðvitað miserfitt fyrir fólk eftir aðstæðum; hvort það eigi börn og annað,“ segir Eyrún. Verði barn nemanda veikt í tvo daga beri nemandanum að vinna veikindin upp með tveimur vöktum.

„Það má svo lítið út af bregða til að fólk sé komið í mínus við námið. Hlutir eins og að börn veikist eða álíka hlutir sem eru óviðráðanlegir geta sett allt á hliðina,“ segir Eyrún.

Kröfurnar bitni mest á þeim sem eigi börn. Það hafi gerst að mæður fái ekki svigrúm til að mæta í foreldraviðtöl barna sinna. „Til mín hafa leitað yfir tuttugu stelpur og margar þeirra eru búnar með öll sín úrræði, svo margar eru þreyttar og stressaðar,“ segir Eyrún.

Þá nefnir Eyrún mikla umræðu um brottfall og kulnun í stétt hjúkrunarfræðinga. Fyrirkomulag námsins sé ekki til að draga fleiri að eða auka starfsánægju. Sem sviðsráðsforseti er Eyrún fulltrúi nemenda í stjórn heilbrigðisvísindasviðs. Í haust lagði hún þar til að mætingarskylda yrði lækkuð í 85 prósent.

„Sú tillaga var felld en ég ætla að prufa að leggja fyrir tillögu um 90 prósent næst, því ég held að það gæti strax orðið mikill munur. Þá erum við allavega komin með eina vakt á þriggja vikna tímabili. Svo þyrfti jafnvel að koma klausa um veikindi barna og að það yrðu úrbætur fyrir þá nemendur sem mest þyrftu á að halda. Endanlegt markmið er þó einnig að verknám verði metið til launa,“ segir Eyrún.

Herdís Sveinsdóttir, deildarforseti hjúkrunarfræðideildarinnar, segir reglur um verknám í deildinni fylgja tilskipan Evrópusambandsins og að mikilvægt sé að halda þeim reglum sem settar eru til að halda gæðum námsins. Hjúkrunarfræðideild HÍ raðast í sæti 100 -150 á lista um gæði náms í hjúkrunar- og ljósmóðurfræðum á heimsvísu.

„Almennt séð er það reynsla mín að þeir hjúkrunarfræðingar sem koma að klínískri kennslu nemenda séu almennilegt fólk sem reynir að koma til móts við nemendur og aðlagar námstíma þeirra, ef eitthvað kemur upp á. Enda er það stefna deildarinnar að koma til móts við nemendur og reyna að taka tillit til sjónarmiða þeirra innan þeirra marka sem eðlilegt getur talist,“ segir Herdís.

Hún segir mikilvægt að nemendur hljóti þá þjálfun sem nauðsynleg sé hjúkrunarfræðingum og uppfylli þar með mætingarskyldu í verknám. „Grundvallarforsenda sem gengið er út frá er að nemandi fái það klíníska nám sem honum ber og það er alger lágmarkstími sem hver nemandi er í klínísku námi tengdu hverju sérsviði hjúkrunar,“ segir hún. [email protected]