Hjör­leifur Hall­gríms Her­berts­son segist ekki hafa verið rekinn úr Flokki fólksins líkt og Út­varp saga full­yrti í morgun. Hann segist aldrei hafa verið skráður í flokkinn.

Eins og fram hefur komið hefur Hjör­leifur, sem var kosninga­stjóri Flokks fólksins fyrir norðan, borinn þungum sökum af þremur konum í for­ystu­sveit flokksins. Þær héldu blaða­manna­fund í þar síðustu viku vegna málsins. Hjör­leifur vill ekkert tjá sig um málið.

Sam­kvæmt reglum Flokks fólksins getur sá fé­lags­maður sem staðinn er að því að vinna gegn hags­munum flokksins átt von á því að hann verði sviptur fé­lags­aðild. Full­yrti Út­varp saga í morgun að Hjör­leifi hafi verið vikið úr flokknum á grund­velli þessa.

Þá sagði út­varps­stöðin að Jón Hjalta­son, sem skipaði þriðja sæti lista flokksins á Akur­eyri hefði auk þess sagt sig úr flokknum. Hann hyggist sitja á­fram í nefndum.

Gekk aldrei í flokkinn

„Það er ekkert hægt og þetta er tómt bull eins og allt annað sem sagt er um mig, ég er ekkert í Flokki fólksins og hef ekkert hugsað mér að ganga í hann,“ hefur út­varps­stöðin eftir Hjör­leifi vegna málsins.

„Ég get ekki hugsað mér að vera undir hand­leiðslu ó­á­byrgs fólks eins og Ingu Sæ­land og Guð­mundar Inga, það er úti­lokað að vera í slag­togi með þeim,“ segir Hjör­leifur.