Hjörleifur Hallgríms Herbertsson segist ekki hafa verið rekinn úr Flokki fólksins líkt og Útvarp saga fullyrti í morgun. Hann segist aldrei hafa verið skráður í flokkinn.
Eins og fram hefur komið hefur Hjörleifur, sem var kosningastjóri Flokks fólksins fyrir norðan, borinn þungum sökum af þremur konum í forystusveit flokksins. Þær héldu blaðamannafund í þar síðustu viku vegna málsins. Hjörleifur vill ekkert tjá sig um málið.
Samkvæmt reglum Flokks fólksins getur sá félagsmaður sem staðinn er að því að vinna gegn hagsmunum flokksins átt von á því að hann verði sviptur félagsaðild. Fullyrti Útvarp saga í morgun að Hjörleifi hafi verið vikið úr flokknum á grundvelli þessa.
Þá sagði útvarpsstöðin að Jón Hjaltason, sem skipaði þriðja sæti lista flokksins á Akureyri hefði auk þess sagt sig úr flokknum. Hann hyggist sitja áfram í nefndum.
Gekk aldrei í flokkinn
„Það er ekkert hægt og þetta er tómt bull eins og allt annað sem sagt er um mig, ég er ekkert í Flokki fólksins og hef ekkert hugsað mér að ganga í hann,“ hefur útvarpsstöðin eftir Hjörleifi vegna málsins.
„Ég get ekki hugsað mér að vera undir handleiðslu óábyrgs fólks eins og Ingu Sæland og Guðmundar Inga, það er útilokað að vera í slagtogi með þeim,“ segir Hjörleifur.