„Við hyggjumst fyrst og fremst reka ferða­þjónustu á Laugum,“ segir Karl B. Örvars­son, sem á­samt konu sinni Hall­dóru Árna­dóttur er að hverfa úr Hrúta­firði eftir að hafa rekið þar vin­sælar skóla­búðir í tvo ára­tugi.

Karl og Hall­dóra hafa nú á­samt fleirum gert samning við Dala­byggð um kaup­leigu á byggingum gamla skólans á Laugum í Sælings­dal. Neyti þau for­kaups­réttar að tveimur árum loknum eignast þau allar byggingarnar og land þar í kring fyrir sam­tals 270 milljónir króna.

Karl segir að þau Hall­dóra eigi í við­ræðum við Húna­þing vestra um upp­gjör vegna Reykja.

Eins og fram kom í Frétta­blaðinu í janúar á þessu ári sögðu hjónin það hafa komið þeim í opna skjöldu að ekki ætti að fram­lengja sam­starfið við þau heldur fara í við­ræður við UMFÍ um rekstur skóla­búða á Reykjum frá og með í haust.

„Þetta kemur sér eins illa fyrir okkur og frekast getur verið,“ sagði Karl þá.

Sam­kvæmt svari frá UMFÍ er búist við að gerð sam­komu­lags um Reyki ljúki á næstu dögum

Að­spurður hvort ætlunin sé að reka skóla­búðir á Laugum líkt og gert hafi verið á Reykjum bendir hann á að þar sé þegar rekið hótel að sumar­lagi. Á­formin snúi að því að byggja upp frekari ferða­þjónustu. Þó sé ekki úti­lokað að skóla­búðir verði á Laugum á veturna.

„Við eigum eftir að skoða þetta allt betur,“ segir Karl. Þau muni fá að­gang að staðnum í októ­ber og eignirnar síðan af­hentar um ára­mótin.

Mann­virkin sem tekin verða á kaup­leigu eru hótel. skóla­hús, þrjú ein­býlis­hús, í­þrótta­hús, sund­laug og tjald­stæði með þjónustu­húsi. „Staðurinn er mjög spennandi og hér eru alls kyns mögu­leikar,“ segir Karl.

Auk mann­virkjanna fylgir með 13,1 hektari lands og allt lausa­fé í húsunum að undan­skildum lista­verkum úr eigu Dala­byggðar. Skúlptúr eftir Ás­mund Sveins­son er sér­stak­lega nefndur í kaup­samningnum og kveðið á um að hann sé í eigu sveitar­fé­lagsins en verði ekki fjar­lægður strax.

Að sögn Karls fer hann fyrir ó­nefndu fé­lagi þeirra Hall­dóru og fleiri aðila. „Þetta er of stór biti fyrir bara okkur tvö,“ út­skýrir hann.