„Þegar við ætluðum að versla inn fyrir út­göngu­bannið var allur matur upp­urinn og auð­vitað klósett­pappírinn, svo við áttum ekki mikið af vistum við upp­haf út­göngu­bannsins,“ segir Kristín Sigur­jóns­dóttir sem dvelur nú á Kanarí­eyjum á­samt eigin­manni sínum, Gunnari Smára Helga­syni.

Þó að Kristín og Gunnar séu á Kanarí­eyjum verður seint sagt að þau séu á miklum ferða­manna­stað. Þau búa nefni­lega í helli fjarri manna­byggðum og ættu því að vera nokkuð örugg nú þegar CO­VID-19 far­aldurinn geisar um heim allan.

Telja sig örugg í fjöllunum

Frétta­blaðið heyrði í Kristínu og spurði út í lífið á Kanarí­eyjum, en eins og margir vita hefur ríkt út­göngu­bann á Spáni – Kanarí­eyjum þar á meðal – vegna far­aldursins.

Kristín og Gunnar komu út í byrjun febrúar og ætluðu að vera fram í maí. Þegar þau fóru út var kórónu­veiran sem veldur CO­VID-19 ekki farin að láta veru­lega á sér kræla. Tíminn mun leiða það í ljós hvort dvölin fram­lengist fram á sumarið og ræðst það væntan­lega af út­breiðslu veirunnar.

Kristín og Gunnar Smári inni í öðrum hellinum. Sex fíleflda karlmenn þurfti til að bera steinborðið sem þau sitja við inn í hellinn.
Mynd/Úr einkasafni

Að­spurð segir Kristín að þau hjónin finni mikið fyrir á­hrifum far­aldursins.

„Já, mjög mikið. Hér er út­göngu­bann og má einungis fara að ná í nauð­synjar og til læknis. Þá má bara vera einn í bíl og lög­reglan fylgir banninu eftir með al­væpni. Þar sem við búum marga kíló­metra frá manna­byggðum teljum við okkur nokkuð örugg hér uppi í fjöllunum.“

Slökkt á öllu mann­lífi

Eftir að út­göngu­bannið skall á hefur eigin­maður Kristínar, Gunnar Smári, farið einu sinni eftir vistum og segir Kristín að það hafi verið mjög sterk upp­lifun fyrir hann. „Það sást svo greini­lega hvernig slökkt hefur verið á öllu mann­lífi,“ segir hún en bætir við að úr­val af mat og öðrum nauð­synja­vörum hafi verið gott. Þau hafi engu að síður á­kveðið að versla fyrir tvær vikur hið minnsta til að þurfa ekki að fara oft til byggða. „Við erum um 20-30 mínútur í næstu verslun á bíl.“

Kristín og Gunnar eru bæði 62 ára en eins og greint hefur verið frá er eldra fólk helst í hættu á að veikjast al­var­lega af CO­VID-19. Þó að Kristín og Gunnar séu á besta aldri segjast þau hafa hugsað málið gaum­gæfi­lega, meðal annars með til­liti til aldurs, þegar þau á­kváðu að standa af sér CO­VID-19 storminn á Kanarí­eyjum.

Gunnar Smári við uppsetningu á sólarsellum. „Hann smíðaði og rafsauð allt undirverkið. Undirstöðurnar eru úr efni sem var til hér fyrir. Við erum að reyna að endurnýta allt sem við getum,“ segir Kristín.
Mynd/Úr einkasafni

„Við teljum að við gætum ekki verið betur stað­sett með til­liti til ein­angrunar, við erum bæði þokka­lega hraust þó við séum bæði 62 ára. Aldurinn var það eina sem tikk­aði í boxið þegar Ís­lendingum var ráð­lagt að koma heim. Við höfum fulla trú á að vel væri hugsað um okkur ef við veiktumst,“ segir Kristín sem hefur kynnst heil­brigðis­kerfinu á Kanarí­eyjum sem hún segir vera gott.

„Hér á eyjunum eru að­gengi­legar um 400 öndunar­vélar og þeim er hægt að fjölga í 500. Einnig er verið að loka á alla um­ferð hingað til Kanarí­eyja,“ segir Kristín en eins og sést á þessu ættu þau hjónin að vera í nokkuð góðum málum.

Tveir hellar í 25 þúsund fer­metra land

Eins og að framan greinir eru hjónin í þeirri ó­venju­legu stöðu að vera bú­sett í helli á Kanarí­eyjum. Að­spurð hvernig það kom til að þau hjónin á­kváðu að kaupa sér helli, segir Kristín:

„Við dvöldum hér á Kanarí fyrst í fimm vikur á eigin vegum til að kynnast eyjunni og lofts­laginu. Okkur leið mjög vel þó við séum ekki svona dæmi­gerðir túr­istar,“ segir hún. Hún segir að þau hjónin hafi svo frétt af þessari para­dís sem var til sölu á fast­eigna­sölu og á­kveðið að skoða að gamni.

Tröllahjónin og hellisbúarnir með beina útsendingu á þættinum sínum, Tíu dropum, á FM Trölla sem er á dagskrá á sunnudögum frá klukkan 13-15.
Mynd/Úr einkasafni

„Ég var nú ekkert sér­stak­lega spennt svona við fyrstu sýn enda nánast ó­fært venju­legum bílum hingað. En Gunnar Smári var alveg heillaður af um­hverfinu og öllu því sem fylgdi. Fyrri eig­andi var fallinn frá en hafði hann verið með skepnur hér og er hellir hér fyrir ofan þar sem þær hafa verið og alls­konar girðingar. Einnig fylgdi þessum tveim hellum um 25 þúsund fer­metra land svo það er al­deilis nægt pláss hér hjá okkur,“ segir hún. Úr varð að hjónin keyptu hellinn og er ó­hætt að segja að það fari vel um þau hjónin.

„Við að­hyllumst bæði ein­faldan og heil­brigðan lífs­stíl. Hér fáum við hvort tveggja og erum alltaf að gera eitt­hvað, einnig fáum við út­rás fyrir alls­konar sköpun. Gunnar Smári er núna að smíða hljóð­vinnu­stofu þar sem hann getur unnið við hljóð­vinnslu og for­ritun. Ég er ljós­myndari og hér hjá okkur er ó­þrjótandi mynd­efni. Við stýrum einnig frétta­síðunni Trölli.is og út­varps­stöðinni FM Trölla héðan með á­gætis árangri. Við hjónin erum með beina út­sendingu alla sunnu­daga í þættinum Tíu dropar frá klukkan 13 til 15, hvort sem við erum hér á Kanarí, Ís­landi eða annars staðar.“

Kristín segir að hitinn í hellinum sé um 20 til 23 gráður og eru þau til dæmis sjálf­bær með raf­magn. Gunnar Smári kom upp 20 fer­metra sólar­panel sem dugar býsna vel á þessum sól­ríka stað.

Kristín segir að lokum að þau hjónin ætli að dvelja á Kanarí­eyjum að minnsta kosti fram á vor en mögu­lega lengur. „Við stefnum að því að vera hér sex til níu mánuði á ári, ef til vill í tveimur lotum.“

Áhugasamir geta fylgst með lífi þeirra hjóna á vef Trölla en þar birta þau reglulega myndbönd af lífinu á Kanaríeyjum.