Fyrir tveimur árum siðan hélt Dr. Ugur Sahin ræðu á ráð­stefnu í Ber­lín fyrir smit­sjúk­dóma­sér­fræðinga þar sem hann hélt því fram að fyrir­tækið hans BioN­Tech gæti fram­leitt svo­kallað RNA- bólu­efni á met­hraða, ef til heims­far­aldrar kæmi.

Á þeim tíma var fyrir­tækið hans BioN­Tech fremur ó­þekkt, nema meðal sér­fræðinga í smit­sjúk­dóma­fræðum, en fyrir­tækið stofnaði Sahin á­samt eigin­konu sinni Dr. Özlem Türeci, tíu árum áður.

Fyrir­tækið var á þeim tíma ekki búið að skila neinu lyfi á markað og vann að mestu að því að þróa krabbameinslyf. Kórónu­veiran var fjar­lægð mar­tröð á þeim tíma en svo virðist sem að Sahin sé að standa við stóru orðin.

Á mánu­daginn var greint frá því að bólu­efni BioN­Tech og Pfizer gegn kórónu­veirunni, sem var þróað af Sahin og hans teymi, virki í 90% til­fella gegn veirunni.

„Þetta gæti verið byrjunin á endinum á CO­VID-tíma­bilinu,“ sagði Dr. Sahin í við­tali á þriðju­daginn.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins undirritaði í dag samning við lyfjafyrirtækið Pfizer um kaup á 200 milljónum skammta af bóluefni fyrirtækisins við COVID-19 með möguleika á 100 milljón skömmtum til viðbótar. Íslandi er tryggður sami aðgangur að bóluefnum sem Evrópusambandið semur um og aðildarríkjum sambandsins.

Sannfærður um hættur veirunnar í janúar

BioN­Tech byrjaði að vinna að bólu­efninu strax í janúar eftir að Sahin las grein í lækna­tíma­ritinu Lancet og varð sannfærður um að kórónu­veiran, sem þá var einungis bundin við Wu­han í kína, yrði að heims­far­aldri.

Vísinda­menn fyrir­tækisins, sem er stað­sett í Mainz í Þýska­landi, frestuðu fyrir­huguðum frí­dögum sínum og byrjuðu að vinna að bólu­efni.

„Það eru ekki mörg fyrir­tæki í heiminum sem hafa getuna og hæfnina til að fram­leiða bólu­efni á þessum hraða,“ sagði Sahin í við­tali við The New York Times í síðasta mánuði. „Þannig ég sá þetta ekki sem tæki­færi heldur sem skyldu, þar sem ég áttaði mig á því að við gætum verið með þeim fyrstu til að fram­leiða bólu­efni.“

Vísindamenn og innflytjendur

Þegar BioN­Tech var búið að fram­leiða nokkrar tegundir af bólu­efni var ljóst að fyrir­tækið þurfti að­stoð við að prófa bólu­efnið, fá sam­þykki frá eftir­lits­stofnunum og að­stoð við að koma því á markað.

BioN­Tech og lyfjarisinn Pfizer höfðu unnið saman að bólu­efni gegn flensu frá árinu 2018 og ákváðu því fyrirtækin að fara í sam­starf um fram­leiðslu á bólu­efni fyrir kórónu­veirunni í mars á þessu ári.

Sahin segir í sam­tali við Times að síðan þá hefur hann og for­stjóri Pfizer, Albert Bourla, myndað með sér vin­skap þar sem þeir eru báðir vísinda­menn og báðir inn­flytj­endur. Sahin er frá Tyrk­landi en bú­settur í Þýska­landi á meðan Bourla er frá Grikk­landi og býr í Bandaríkjunum.

Sem fyrr segir virkar bólu­efnið í 90 prósentum til­fella. Heil­brigðis­yfir­­völd hafa áður sagt að þau muni sam­þykkja bólu­efni sem virkar fyrir að minnsta kosti helming þátt­tak­enda.

Fyrir­tækin vinna nú á­fram að prófun bólu­efnisins. Gangi ferlið hratt fyrir sig gætu fyrstu skammtar verið komnir til heil­brigðis­­starfs­manna fyrir lok ársins.

Þessi frétt er unnin upp úr grein The New York Times.