„Þau eru alveg búin á því,“ segir Sædís Inga Ingimarsdóttir, dóttir Geirþrúðar Elídóttur og Ingimars Víglundssonar, sem neyddust til að sigla með Norrænu til Danmerkur og til baka til Íslands vegna þess að þau fengu ekki að stíga á land í Færeyjum.

Eins og fram kom í Fréttablaðinu í gær fara þau Ingimar og Geirþrúð sem er hálf-færeysk á hverju ári til dvalar í húsi sínu í Færeyjum. Þau ætluðu með Norrænu til Færeyja í síðustu viku en var meinuð landganga í Þórshöfn, þar sem þau eru íslenskir ríkisborgarar sem ekki uppylla skilyrði gildandi sóttvarnalaga í eyjunum. Hvorki þau sjálf né Norræna ferðaskrifstofan sem seldi þeim farmiðana hafði áttað sig á þessu fyrir fram.

Geirþrúð og Ingimar komu til baka til Seyðisfjarðar í gær eftir sex daga á siglingu og þaðan óku þau heim til sín til Akureyrar. Og nú eru þau komin í tveggja vikna sóttkví á sínu eigin heimili, vegna þess að þau fóru úr landi.

„Þau er bara fegin að vera komin heim,“ segir Sædís sem kveðst ásamt dóttur sinni munu aðstoða foreldra sína í sóttkvínni. „Það verður ekkert vandamál.“

Faðir Sædísar hringdi í hana af bryggjunni í Þórshöfn til að leita aðstoðar þegar í ljós kom að þeim hjónum yrði ekki leyft að vera í Færeyjum heldur yrðu að halda áfram með Norrænu. Ekki náðist að greiða úr málinu og Sædís biðlaði til landsstjórnarinnar í Færeyjum um að foreldrum hennar yrði hleypt í land vegna veikinda móður hennar. Ekkert svar hafi borist.

„Veikindi móður minnar eru af þeim toga, með sjóveiki í ofanálag, að venjulega fer hún ekki neitt, en lætur sig hafa sólarhringssiglingu til að komast til Færeyja einu sinni á ári,“ útskýrir Sædís. Móðir hennar sem er 69 ára sé hjartveik, sykursjúk og með gigt og ónýtt bak. „Enda var hún nánast allan tímann í koju.“

Sædís undirstrikar að foreldrar hennar hafi lagt traust sitt á Norrænu ferðaskrifstofuna. Þau hafi átt von á því að þeim yrði komið á milli án nokkurra vandkvæða. „Þú átt að geta treyst því að ferðaskrifstofa sem eðlilega tekur sér sölulaun kynni sér allt saman,“ segir hún.

Aðspurð hvað fjölskyldan vilji segir Sædís að í fyrsta lagi vilji þau að Norræna ferðaskrifstofan biðji foreldra hennar afsökunar en reyni ekki að sá efasemdum um hvar sökin liggi.

„Það er engin spurning um það hjá okkur að sökin liggur alfarið hjá þeim. Í öðru lagi væri réttast að þau myndu annað hvort fá ferðina endurgreidda að fullu eða þá næstu borgaða,“ segir Sædís sem kveður foreldra sína ekki hafa gefist upp á Færeyjaferð. „Þetta er það eina sem þau gera fyrir sig og þau munu fara um leið og það verður leyft.“