„Þetta er meira en lítið leiðinlegt,“ segir Geirþrúð Elídóttir sem í dag kemur aftur til Íslands eftir að hafa neyðst til að hringsóla með Norrænu frá Seyðisfirði yfir Atlantshafið og aftur til baka.

Geirþrúð og Ingimar Víglundsson, eiginmaður hennar, fara á hverju ári til langrar dvalar á Suðurey í Færeyjum enda er Geirþrúð hálfur Færeyingur. Eins og áður keyptu þau farmiða með góðum fyrirvara. Á mánudaginn í síðustu viku var hringt í þau frá Norrænu ferðaskrifstofunni til að spyrja hvort þau myndu ekki nýta miðana og sigla með Norrænu frá Seyðisfirði næsta miðvikudag. Það gerðu þau.

„Við vorum stoppuð á bryggjunni í Færeyjum og sagt að við mættum ekki koma í land,“ segir Geirþrúð. Vegna sóttvarnareglna var hjónunum óheimilt að stíga á land. Aðeins Færeyingar, Danir og Grænlendingar mega koma til Færeyja um þessar mundir og þurfa þá að taka út tveggja vikna sóttkví. Sá möguleiki stóð Geirþrúð og Ingimar ekki til boða sem íslenskum ríkisborgurum, jafnvel þótt þau ráði yfir húsi í Færeyjum. Þau fóru því áfram með Norrænu til Danmerkur og þaðan til baka til Færeyja og koma síðan til hafnar á Seyðisfirði í dag.

Geirþrúð undrast að Norræna ferðaskrifstofan hafi ekki bent þeim á að þau uppfylltu ekki skilyrði til að komast inn í Færeyjar.

„Þetta er búið að vera mjög strembið. Ég er sjúklingur og það er ekki spennandi að þvælast svona,“ segir Geirþrúð og bendir á að hún sé öryrki og Ingimar kominn á eftirlaun. „Ef við hefðum vitað að það mætti ekki fara inn í landið hefðum við aldrei farið. En okkur var ekki sagt neitt.“

Sigurjón Þór Hafsteinsson, framkvæmdastjóri Norrænu ferðaskrifstofunnar, segir málið leiðinlegt í alla staði. „Það gerði sér enginn grein fyrir því að þau fengju ekki að fara í land,“ segir hann. Á heimasíðu útgerðarfélags Norrænu, Smyril Line, segi að allir sem komi til Færeyja þurfi að fara í sóttkví.

„Sá sölumaður sem sá um bókunina var í góðri trú um að þetta mynda virka fyrir þau,“ segir Sigurjón. Hins vegar hafi komið í ljós við skoðun á opinberri COVID-síðu Færeyja að þetta gildi aðeins um Færeyinga, auk Dana og Grænlendinga. „Það eru upplýsingarnar sem lágu ekki fyrir.“

Að sögn Sigurjóns hafi engir aðrir héðan lent í sömu hremmingum og Geirþrúð og Ingimar. „Það er búið að gera allt sem hægt er til að bæta þeim þetta, það hefur verið farið með þau eins og VIP um borð,“ segir Sigurjón. „En þau virðast ekkert hafa kynnt sér þetta sjálf og það er spurning hver ber ábyrgðina; er það sá sem selur miðann og þarf farþeginn enga ábyrgð að sýna?“

Til að bæta gráu ofan á svart skemmdist bíll Ingimars og Geirþrúð í óhappi um um borð. „Stýrimaðurinn lenti í klaufalegu óhappi með bílinn þeirra. En þeim hefur verið sagt að láta gera við bílinn og senda reikning,“ segir Sigurjón