Hjón, sem vilja ekki láta nafn síns getið, gáfu í morgun þrjátíu milljónir króna í söfnun Rauða kross Íslands til styrktar hjálparstarfi vegna stríðsins í Úkraínu.
Samtals hafa um hundrað milljónir króna verið gefnar í söfnun Rauða krossins til styrktar hjálparstarfi vegna stríðsins í Úkraínu.
Kristín Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands, sagði í samtali við fréttastofu RÚV í kvöld að söfnunin gengi vel sem og hjálparstarfið í heild sinni.
Þó gengi hjálparstarfið misvel frá einum stað til annars þar sem ekki hafi verið hægt að komast með aðstoð á suma staði vegna bardaga.
Að sögn Kristínar hafi þó gengið vel að koma hjálpargögnum á ótrúlegustu staði síðustu tvo daga.
Auk fjáröflunarinnar vinnur Rauði krossinn að því að safna fötum, senda erindreka til Úkraínu og landa þar í kring ásamt því að undirbúa komu flóttafólks hingað til lands.
Þá greindi Fréttablaðið frá því í gær að Rauða kross versluninni við Hlemm verði breytt tímabundið í fataúthlutunarstöð fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd og flóttafólk.
Fatasöfnun Rauða krossins fer fram um allt land og hægt er að gefa föt til flóttafólks í fatagáma Rauða krossins. Sérstaklega er óskað eftir hlýjum vetrarfatnaði fyrir flóttafólk, eins og úlpum og vetrarskóm og hversdagsfatnaði, sokka og nærfatnaði.
Hægt er að senda tölvupóst á fataflokkun@redcross.is ef um stærri gjafir er að ræða.