Það voru hjón frá Selfossi sem hlutu fyrsta vinning í Lottó sem dreginn var út þann 26. desember síðastliðinn. Vinningurinn var upp á 104 milljónir króna en sigur­miðinn var keyptur í Kram­búðinni á Sel­fossi. Í gær var greint frá því enn hafi ekki verið búið að hafa uppi á miðaeigandanum.

Stefán Konráðsson, framkvæmdastjóri Íslenskrar getspár ræddi við Morgunútvarpið á Rás 2 í morgun. Hann sagði frá því að hjón­in hafi haft sam­band við Íslenska get­spá skömmu eft­ir lok­un skrif­stof­unn­ar í gær. Að sögn Stefáns sagði maðurinn við konuna sína í síðustu viku þegar fréttir bárust að fyrsti vinningur hefði gengið út að hann vonaðist til að féð kæmist í góðar hendur. „Hann vissi þá náttúrlega ekki að vinningurinn var í veskinu hjá konunni hans,“ segir Stefán.

Konan fór svo í búð í gær til að athuga miðann og þá kom í ljós að hún þurfti að hafa samband við Íslenska Getspá sem þýðir að vinningurinn er stór.

„Hjónin voru alsæl þegar þau heimsóttu skrifstofuna í gær og þau ætla að nýta upp­hæðina til góðra verka," seg­ir Stefán.

Að sögn Stefáns hefur það gerst að fólk hefur ekki sótt stóra vinninga en það gerist sjaldan í dag enda flestir farnir að kaupa miða á netinu og í áskrift og þá er auðvelt að hafa uppi á vinningshöfum. Heimsfaraldur hefur ekki komið í veg fyrir að fólk taki þátt í Lottó en reksturinn hefur gengið vel síðaðsta árið. Veltan nam um sex milljörðum árið 2020.