„Við erum langt í frá búin að gefast upp,“ segir Hrafnhildur Bjarnadóttir, formaður Samhjóls, félags hjólhýsaeigenda á Laugarvatni, um þann úrskurð sveitarstjórnarráðuneytisins að Bláskógabyggð hafi rétt til þess að leggja hjólhýsabyggðina niður.

Samningar einhverra af um tvö hundruð stöðu- og hjólhýsa á hjólhýsasvæðinu runnu út um áramót og samningur hinna rennur út um næstu áramót.

Hrafnhildur segir að um fimmtíu úr þessum hópi hafi þegar gefist upp og séu farin, sumir hafi selt eignir sínar á Laugarvatni á hrakvirði.

Aðspurð til hvaða ráða Samhjól geti nú gripið segir Hrafnhildur að stjórn félagsins þurfi að ræða stöðuna og ráðfæra sig við lögmann sinn.

„En það má minna á að það styttist í sveitarstjórnarkosningar og þá er spurningin hvort íbúar sveitarfélagsins eru sáttir við að leggja af byggð þess hóps sem á mikil viðskipti við fyrirtæki á svæðinu, sérstaklega í þéttbýliskjarnanum á Laugarvatni,“ segir Hrafnhildur.