„Ólaf­ur Ísleifs­son og Karl Gauti Hjalta­son áttu aðeins eitt er­indi á Klaust­ur Bar þetta kvöld og vissu mæta­vel hvað til stóð. Þeir voru að svíkja flokk­inn sem kom þeim á þing.“ Þetta segir Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Greinin ber yfirskriftina „Karlar sem hatast við konur“.

Inga hjólar þar í Ólaf og Karl Gauta fyrir framgöngu þeirra. Hún segir það hafa verið kaldhæðnislegt að lesa gagnrýni Ólafs í grein hans síðastliðinn mánudag þar sem hann sagði að stjórnmálafokki og fólki sem starfaði innan hans stafaði mikil orðsporshætta af þeirri skipan mála sem uppi væri hjá Flokki fólksins.

„Þarna tal­ar maður sem ný­verið hef­ur full­kom­lega að eig­in frum­kvæði og hvöt­um eyðilagt eigið orðspor sem stjórn­mála­maður með því að taka þátt í sam­særi sem hef­ur kastað rýrð á æru þings og þjóðar,“ segir Inga beinskeytt. Og hún er hvergi hætt: „Ólaf­ur Ísleifs­son og Karl Gauti Hjalta­son fé­lagi hans eru nú farn­ir í sögu­bæk­urn­ar sem fyrstu þing­menn lýðveld­is­sög­unn­ar sem eru látn­ir sæta ábyrgð fyr­ir gjörðir sín­ar með því að þeir eru rekn­ir úr sín­um eig­in flokki fyr­ir af­brot sín. Eng­ir nema þeir sjálf­ir frömdu þau ótrú­legu af­glöp að fara til sam­særis­fund­ar við stjórn flokks póli­tískra and­stæðinga Flokks fólks­ins á Klaust­ur Bar, steinsnar frá Alþing­is­hús­inu þann 20. nóv­em­ber síðastliðinn. Öll heims­byggðin hef­ur þegar fengið að frétta af því í fjöl­miðlum hvað gerðist þar.“

Inga segir að flokkurinn hafi ekki átt annars kosta völ en að víkja þingmönnunum burt. „Eng­inn stjórn­mála­flokk­ur hefði látið for­ystu­menn þing­flokks síns kom­ast upp með önn­ur eins svik án þess að slík­ir stjórn­málmenn hefðu verið látn­ir axla ábyrgð. Með þá Ólaf og Karl Gauta áfram inn­an­borðs hefði þing­flokk­ur Flokks fólks­ins ekki aðeins verið óstarf­hæf­ur held­ur einnig meðsek­ur í þeirri and­styggð sem fram fór á Klaust­ur Bar. Orðstír flokks­ins ónýt­ur og hann rú­inn öllu trausti.“

Settar hafa verið spurningar um fjármál Flokks fólksins, bæði af umræddum þingmönnum og Halldóri Gunnarssyni, sem sat í stjórn flokksins. Þeir hafa gagnrýnt að Inga skuli jafnt vera formaður flokksins og prókúruhafi. Inga víkur að þessum máum. Hún bendir á að flokkurinn sé rétt tveggja og hálfs árs gamall og hafi verið stofnaður að hennar frumkvæði, til að berjast fyrir fátæku fólki, öryrkjum og öldruðum. „Sem formaður hef ég í fullu sam­ráði við stjórn þurft að gæta ýtr­ustu ráðdeild­ar þar sem öllu skipt­ir að hafa full­komna yf­ir­sýn frá degi til dags.“

Hún segir að flokkurinn hafi barist í bökkum en búi nú við heilbrigðan fjárhag. Hann sé skuldlaus. Engar athugasemdir hafi borist frá endurskoðendum og öllum reiknningum hafi verið skilað í samræmi við reglur. „Þeir hafa ávallt verið opn­ir öll­um stjórn­ar­mönn­um, líka Karli Gauta Hjalta­syni. Hall­dór Gunn­ars­son sat í stjórn og þriggja manna fjár­hags­ráði flokks­ins, var með aðgang og eft­ir­lits­heim­ild að heima­banka flokks­ins. Hann und­ir­bjó árs­reikn­inga ásamt gjald­kera í hend­ur lög­gilts end­ur­skoðanda. Hall­dór Gunn­ars­son vissi um öll fjár­mál Flokks fólks­ins frá A til Ö. Það er aumt að horfa upp á Hall­dór, Karl Gauta og Ólaf í hefnd­ar­leiðangri nú þar sem þeir reyna að sá fræj­um efa­semda og tor­tryggni um fjár­mál Flokks fólks­ins um leið og þeir vita bet­ur,“ segir Inga.