Ingvar Ómarsson atvinnuhjólreiðamaður segir í viðtali við helgarblað Fréttablaðsins frá alvarlegu slysi sem hann varð fyrir þegar ferillinn var að hefjast árið 2015.
Rúmum mánuði eftir að Ingvar flutti til Rotterdam árið 2015 til að einbeita sér að atvinnumennsku í hjólreiðum lenti honum saman við mótorhjól á 80 kílómetra hraða. Ingvar kastaðist heila tuttugu metra, lenti á höfðinu og töldu sjúkraflutningamenn hann látinn þegar þeir komu á staðinn. Ingvar væri ekki til frásagnar um slysið hefði hann ekki verið með hjálm en gera þurfti tvær stórar aðgerðir á höfði hans til að forða honum frá lömun eða dauða.
Ingvar segist fullviss um að reiðhjólahjálmurinn hafi bjargað lífi sínu. „Ég á hann enn og brot úr hjólastellinu sem sprakk í fimm bita. Það er ekki margt sem lifir 80 kílómetra hraða af.“ Til marks um höggið bendir Ingvar á að gaffall mótorhjólsins beyglaðist en ökumaðurinn hafi sloppið með minni háttar meiðsl.
Ingvar segist hafa verið með góðan hjálm og eftir slysið sé það prinsipp að endurnýja hjálminn árlega. „Það er mælt með að gera það á tveggja til þriggja ára fresti en ég geri það bara á hverju ári. Þetta skiptir mig miklu meira máli en áður – þá var ég bara með hjálm því allir voru með hjálm. Nú í dag væri ekki séns að ég færi út að hjóla án hjálms. Maður veit aldrei hvað gerist.“