Ósk eigenda eigna á hjólhýsasvæðinu á Laugarvatni um að fá að vera þar áfram gegn því að fjármagna sjálfir brunavarnir á svæðinu, var ekki svarað á fundi sveitarstjórnar Bláskógabyggðar á þriðjudag eins og til stóð.

Formaður og gjaldkeri Samhjóls, félags hjólhýsaeigenda á Laugarvatni, mættu til fundar við sveitarstjórnina og sögðu mikla samstöðu með félögum í Samhjóli um málið.

Á fundinum var lagt fram minnisblað frá lögmanni þar sem farið var yfir breytingar sem hafa orðið á byggingarreglugerð varðandi svokölluð stöðuhýsi. Segir í fundargerð sveitarstjórnar að samkvæmt nýjum reglum þurfi ekki lengur byggingarleyfi fyrir stöðuhýsum, sé staðsetningin í samræmi við deiliskipulag.

„Einnig eru reifuð ýmis atriði sem varða möguleika sveitarfélagsins á að taka boði Samhjóls um að kosta uppbyggingu á svæðinu gegn því skilyrði að félagið fái samning til að minnsti kosti tíu ára með framlengingarheimild,“ segir nánar um innihald minnisblaðsins.

Meirihluti sveitarstjórnarinnar ákvað að taka ekki afstöðu í málinu að sinni.

„Í ljósi þess að sveitarstjórnarkosningar fara fram eftir fjóra daga og ný sveitarstjórn mun taka við hinn 29. maí næstkomandi, samþykkir sveitarstjórn að fresta afgreiðslu málsins og vísa því til nýrrar sveitarstjórnar,“ segir í fundargerð sveitarstjórnarinnar.