Um­ferðar­ó­happ varð í um­dæmi lög­reglunnar á Suður­nesjum fyrr í vikunni þegar maður hjólaði yfir hring­torg og hafnaði á bif­reið. Hann kvartaði undan eymslum eftir at­burðinn og var fluttur á Heil­brigðis­stofnun Suður­nesja til að­hlynningar. Þetta kemur fram í frétta­til­kynningu frá lög­reglunni á Suður­nesjum.

Lög­reglu grunaði að hann væri undir á­hrifum fíkni­efna og studdu niður­stöður sýna­töku þann grun því þær stað­festu neyslu hans á kanna­bis.

Þá óku tveir öku­menn á ljósa­staur og um­ferðar­ljós. Annar þeirra hafði sofnað undir stýri og því fór sem fór. Lög­regla hafði einnig af­skipti af tveimur drengjum sem voru saman á einni rafs­kútu ætlaðri einum. Hvorugur var með öryggis­hjálm. Lög­regla hafði sam­band við for­ráða­menn þeirra og til­kynnti málið til barna­verndar.

Tveir ofur­ölvi menn sem voru á vappinu með inn­kaupa­kerru úr Bónus fyrr í vikunni í Kefla­vík vöktu at­hygli veg­faranda sem gerði lög­reglunni á Suður­nesjum við­vart. Í kerrunni reyndist vera mikið magn þýfis úr fjórum verslunum sem annar þeirra hafði tekið án þess að greiða fyrir. Um var að ræða þráð­lausan há­talara, ilm­vötn og ýmis konar mat­vöru úr Bónus að heildar­verð­mæti tæp­lega 50 þúsund krónur.

Annar mannanna viður­kenndi þjófnaðinn við skýrslu­töku hjá lög­reglu.